Innlent

Orðsnilld og Apple TV njóta vinsælda

Freyr Bjarnason skrifar
Framkvæmdastjóri Epli.is segir að Apple TV njóti mestra vinsælda.
Framkvæmdastjóri Epli.is segir að Apple TV njóti mestra vinsælda. Fréttablaðið/Anton
„Fólk hefur mikið verið að kaupa alveg ótrúlega fallega seríu sem er gefin út af Forlaginu. Þetta eru þrjár bækur, appelsínugul, neongræn og grá, sem heita Íslensk orðsnilld, Gæfuspor og Íslensk kvæði,“ segir Svanborg Sigurðardóttir hjá Eymundsson í Austurstræti, spurð út í vinsælustu fermingargjafirnar í versluninni.

„Síðan er fólk alltaf hrifið af að gefa orðabækur, til dæmis Íslenska orðabók og Samheitaorðabók. Það er líka enn þá mikill áhugi á að gefa ljóðasöfn eftir til dæmis Stein Steinarr, Davíð Stefánsson og Jónas Hallgrímsson,“ segir hún og bætir við að 501-bækurnar séu líka ótrúlega vinsælar til fermingargjafa. „Þær kosta ekki mikið og eru vel myndskreyttar. Það er ótrúlega fallegt að raða þremur svona saman.“

Töluvert er um að unglingar gefi hver öðrum fantasíubækur og þar eru vinsælastar bækur Johns Green. „Það er mesti unglingametsöluhöfundur sem við höfum séð á árinu. Krakkarnir eru á kafi í þessum fantasíum.“

Hin ýmsu tæki og tól verða vinsælli með hverju árinu. „Apple TV er sjóðheitt,“ segir Bjarni Ákason, framkvæmdastjóri Epli.is, um vinsælustu fermingjargjöfina þar á bæ. Þar á eftir nefnir hann til sögunnar iPhone 5S, MacBook Air 13“ og loks iPad Mini.

Sumir vilja hafa einfaldleikann í fyrirrúmi og kjósa að gefa fermingarbarninu pening. Tvær upphæðir eru líklegastar til að fylgja með í umslaginu, fimm þúsund krónur, eða hinn nýi tíu þúsund króna seðill sem gæti komið sterkur inn í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×