Lífið

Karókíkeppni háskólanna 2014

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Kristín Inga Jónsdóttir sigraði karókíkeppni háskólanna í fyrra.
Kristín Inga Jónsdóttir sigraði karókíkeppni háskólanna í fyrra. mynd/einkasafn
„Það verður allt troðfullt því það eru bara fjögur pláss laus á seinna undankeppnikvöldinu,“ segir Páll Eyjólfsson einn aðstandenda og skipuleggjandi karókíkeppni háskólanna 2014 sem fram fer í Stúdentakjallaranum í kvöld.

Næstu þrjár vikurnar fer karókíkeppnin fram, fyrra undankeppnikvöldið í kvöld og það seinna 3. apríl og keppt verður til úrslita 10. apríl. Keppnin, sem haldin er af Bláa kortinu og Hringtorgi í samstarfi við K100.5 og Stúdentaráð, var haldin í fyrsta sinn í fyrra og vakti þá mikla gleði og var því ákveðið að endurtaka leikinn í ár.

„Í fyrra var Eurovision-þema en í ár er alþjóðlegt þema. Í fyrra voru fyrstu verðlaun þrír miðar á lokakeppni Eurovision en nú eru fyrstu verðlaun gjafabréf í millilandaflug upp á 120.000 krónur,“ segir Páll. Að auki verður fjöldi aukaverðlauna veittur fyrir önnur atriði.

Hann segir að fólk komi alls staðar að af landinu til þess að sýna listir sínar í karókí. „Hver veit nema við stækkum þetta næst og förum með þetta út á land líka.“

Dagskráin hefst klukkan 20.00 öll kvöldin. Fjöldi keppenda er takmarkaður og í fyrra komust færri að en vildu. Skráning stendur nú yfir hjá skraning@hringtorg.is.

Dómarar í keppninni í ár verða stórsöngvararnir Matti Matt og Eyþór Ingi en kynnir verður Sigvaldi Kaldalóns, betur þekktur sem Svali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.