Lífið

Djamm er snilld í Perlunni

Baldvin Þormóðsson skrifar
Leiksýningin er sett upp í einum af gömlu vatnstönkum Perlunnar.
Leiksýningin er sett upp í einum af gömlu vatnstönkum Perlunnar. vísir/daníel
„Við mættum bara fyrst í gær að skoða tankinn og taka til,“ segir Vilhelm Þór Neto, meðlimur Stúdentaleikhússins, en leikhópurinn er að undirbúa nýtt verk sem nefnist einfaldlega Djammið er snilld. Það var leikstjórinn Tryggvi Gunnarsson sem skrifaði verkið í samstarfi við leikhópinn.

„Sagan er unnin úr ýktum sögum af djamminu og reynslu okkar allra af íslensku djammi,“ segir Vilhelm og bætir því við að samskipti kynjanna séu einnig viðfangsefni sem þreifað verður á í leikritinu.

„Verkið er tilbúið, við eigum bara eftir að renna í gegnum það í þessum nýju aðstæðum,“ segir Vilhelm en sýningin verður sett upp í einum af gömlu vatnstönkum Perlunnar.

„Síðan á brunavarnaeftirlitið eftir að koma og sjá hvort allt gangi ekki upp,“ segir Vilhelm en hópurinn er mjög spenntur að fá að njóta sín á svona óvenjulegu sviði.

„Tanknum verður líklegast skipt í tvennt, áhorfendur öðrum megin og leikhópurinn hinum megin,“ segir Vilhelm en leikhópurinn ætlar að reyna að skapa ákveðna stemningu á vettvangnum.

„Við viljum hafa svona fyrirpartístemningu þarna, verkið fjallar um djammið og við viljum að áhorfendum líði eins og þeir séu hluti af partíinu,“ segir Vilhelm.

„Eitt af vandamálum okkar núna er hversu mikið það ómar í tanknum,“ segir Vilhelm en Stúdentaleikhúsið leitar til fólks til þess að fá afnot af einhvers konar tjöldum sem hægt er að nota til þess að dempa hljóðið.

Stúdentaleikhúsið stefnir að frumsýningu 4. apríl og segir Vilhelm undirbúning ganga vel.

„Við hvetjum alla áhugamenn um íslenskt djamm til þess að sækja sýninguna,“ segir Vilhelm.

Leikhópur Stúdentaleikhússins.vísir/daníel





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.