Lífið

Palli pissar sýrupissi

Vinir Birgir Steinn, Úlfur Páll og Bjartur Eldur eru bekkjarfélagar í Grandaskóla og spila í sama flokki í fótbolta.
Vinir Birgir Steinn, Úlfur Páll og Bjartur Eldur eru bekkjarfélagar í Grandaskóla og spila í sama flokki í fótbolta. Fréttablaðið/Stefán
Þeir eru allir níu ára – að verða tíu og eru nemendur í Grandaskóla. Skemmtilegast af öllu finnst þeim að spila fótbolta og eru allir í KR. Birgir Steinn heldur með Manchester United í ensku deildinni en Bjartur Eldur með Arsenal. Þegar Úlfur Páll, sem er á milli hinna tveggja, nefnir United sem sitt uppáhaldslið fær hann olnbogaskot frá Bjarti og flýtir sér að skipta sér í miðju með fingri. Þetta eru miklir grínkarlar.

Þeir fóru á myndina Antboy á föstudagskvöldið. Hún var upphafsmynd alþjóðlegrar barnakvikmyndahátíðar í Bíói Paradís og þeir eru sammála um að hún hafi verið skemmtileg.

Bjartur: „Þetta var dönsk mynd en Antboy 2 er í tökum í Þýskalandi.“

Birgir: „Það strákur í henni sem heitir Óskar í alvörunni en Palli í myndinni.“

Bjartur: „Svo er 12 ára íslenskur strákur sem heitir Ágúst sem talar inn á myndina.“

Úlfur: „Hann Palli fær ofurkrafta sem maurarnir hafa af því einn maur bítur hann.“

Bjartur: „Já, og hann verður svo sterkur að hann getur haldið á margfaldri þyngd sinni.“

Birgir: „Og hann pissar sýrupissi.“

Bjartur: „Þannig að klósettið splundrast.“

Úlfur: „Svo bjargar hann stelpu.“

Spurðir hvort þeir ætli að fara á fleiri myndir á hátíðinni eru þeir allir jákvæðir fyrir því. Það kemur ekki á óvart að mestur áhuginn er á að fara á fótboltamynd.

Birgir: „Sú mynd er um strák sem fer til Manchester United – besta liðsins sko…“

Bjartur: „…nei, ömurlegasta liðsins. En strákurinn kemur til að þjálfa upp nýtt krakkalið hjá United af því aðalliðið hafði lent í flugslysi. Þar dóu sumir en hann hafði lifað af.“

Skyldu þeir sjálfir hafa áhuga á að verða leikarar í framtíðinni?

Úlfur: „Nei, ég ætla að verða fótboltaspilari, söngvari og bóndi.“

Bjartur: „Ég ætla bara að vinna á kassa í Bónus.“

Birgir: „Og ég ætla að verða fótboltamaður.“

Þar með er viðtalinu lokið og strákarnir skunda á æfingu hjá KR.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.