Innlent

Stóra-Laxá einn af 91 virkjanakostum

Svavar Hávarðsson skrifar
Stóra-Laxá í Hreppum er einn þeirra virkjanakosta sem Landsvirkjun vill láta skoða. fréttablaðið/svavar
Stóra-Laxá í Hreppum er einn þeirra virkjanakosta sem Landsvirkjun vill láta skoða. fréttablaðið/svavar
Tillögur að nýjum virkjanakostum til meðferðar við 3. áfanga rammaáætlunar eru ekki síst til að kanna hugarfar landsmanna gagnvart orkunýtingu. Tillögur um nýja kosti eru allar frá Orkustofnun komnar og því engar óskir frá orkufyrirtækjum að baki þeim. Nokkrar tillögur markast af staðsetningu vegna veikleika í meginflutningskerfi raforku.

Kristinn Einarsson, yfirverkefnisstjóri auðlindanýtingar hjá Orkustofnun, útskýrir að 43 tillögur um virkjanakosti af 91 hafi komið frá orkufyrirtækjum. Af þeim sendi Orkustofnun 42 áfram til umfjöllunar verkefnisstjórnar. Aðrir af 91 virkjanakosti koma frá Orkustofnun, og þar af 27 nýir.

„Það er æskilegt fyrir verkefnastjórnina að hafa sem flesta kosti með; að þeir spanni allt litrófið. Bæði góðir og slæmir hvort sem það varðar hagkvæmni eða umhverfislega þætti,“ segir Kristinn og bætir við að Orkustofnun hafi talið að auka þyrfti fjölbreytni virkjunarkosta í vatnsafli. Bæði hvað varðar stærð, að minni kostir kæmu inn, og svo vegna staðsetningarinnar.

„Dreifikerfi raforku er of veikt til að senda orku hvert sem er,“ segir Kristinn. Hann játar því að virkjanir í Hofsá og Hafralónsá á Norðausturlandi séu nærtækt dæmi vegna stöðu raforkuflutninga á því svæði.

Kristinn segir að virkjanakostirnir séu þeir vænlegustu sem birtir voru í Hvítbók iðnaðarráðuneytisins frá árinu 1994, þar sem gefið var yfirlit um orkukosti á sínum tíma.

„Við bættum svo við tveimur kostum í vindorku til viðbótar við hugmyndir Landsvirkjunar. Annars vegar Þröskuldum vegna þess að það skortir orku á Vestfjörðum, og einnig við Þorlákshöfn. Þar vildum við láta skoða hvort menn vilja vindmyllur á láglendi nálægt byggð,“ segir hann og bætir við að þannig séu tillögurnar hugsaðar til að kanna viðhorf landsmanna til orkunýtingar.

„Það er okkar lögbundna hlutverk að leggja lista tillagna fyrir verkefnastjórnina og við tökum í sjálfu sér enga afstöðu til þeirra að öðru leyti,“ segir Kristinn.

Hann segir að rammaáætlun sé á skipulagsstigi og smáatriði ekki til umfjöllunar; það falli undir umhverfismat framkvæmda. Meiningin með rammaáætlun sé því að lágmarka kostnað.

„Menn geti strax sagt að einn eða annar kostur komi ekki til greina. Hlutverkið er að grófsigta virkjanakostina.“

Orkustofnun að baki

Orkustofnun sendi verkefnastjórn þriðja áfanga rammaáætlunar bréf 10. mars þar sem lagður er fram 91 virkjunarkostur til umfjöllunar. Þar er um að ræða 49 virkjunarkosti í vatnsafli, 38 kosti í jarðvarma auk fjögurra vindorkuvera.

Um 34 virkjunarkosti í vatnsafli og 30 í jarðvarma hefur verkefnisstjórn fjallað um áður, samtals 64 kosti. Nýir kostir eru 15 í vatnsafli, átta í jarðvarma og fjórir í vindorku, eða 27 samtals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×