Lífið

Var orðinn leiður á vandamálum samfélagsins

Baldvin Þormóðsson skrifar
Mörður Gunnarsson Ottesen býr á Töfrastöðum þar sem markmiðið er að stunda vistrækt og finna lausnir fyrir samfélagið.
Mörður Gunnarsson Ottesen býr á Töfrastöðum þar sem markmiðið er að stunda vistrækt og finna lausnir fyrir samfélagið.
„Ég var orðinn leiður á vandamálum samfélagsins og vildi gera eitthvað í því sjálfur,“ segir Mörður Gunnarsson Ottesen, sveitabæjarstjóri Töfrastaða. 

Töfrastaðir eru á Selfossi en þar er að finna þróunarmiðstöð lífræns landbúnaðar.

Verkefnið er hugarfóstur Marðar og eru markmið þess meðal annars að stunda vistrækt, vinna að sjálfbærni og finna lausnir fyrir íslenskt samfélag.

„Lausnir á Íslandi miðast oft út frá peningum en ekki út frá hagsmunum samfélagsins,“ segir Mörður. Eitt verkefna Töfrastaða er að bjóða fólki ókeypis gistingu á sveitabænum í þrjár nætur gegn þátttöku í verkefnum bæjarins á meðan á dvölinni stendur. „Nú eða ef gestir vilja taka þátt í uppbyggilegum samræðum.“

Á Töfrastöðum er unnið að því að búa til lífrænt kjúklingafóður en níu kjúklingar eru á býlinu. Einnig er á dagskránni að útbúa upptökustúdíó í einu útihúsanna sem verður aðgengilegt fyrir tónlistarmenn. Mörður stefnir að því að halda námskeið á Töfrastöðum fyrir fólk sem vill fræðast um vistrækt og sjálfbærni. „Fyrsta námskeiðið er í júní og er fólki velkomið að hafa samband hafi það áhuga.“

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um starfsemi Töfrastaða á heimasíðunni tofrar.com.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.