Lífið

Kveðja frá Jesú

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Grátmúrinn í Jerúsalem er helgasti staður gyðinga. Hér stendur Fríða Rós með Grátmúrinn og Al-Aqsa-moskuna í bakgrunni.
Grátmúrinn í Jerúsalem er helgasti staður gyðinga. Hér stendur Fríða Rós með Grátmúrinn og Al-Aqsa-moskuna í bakgrunni. myndir/Fríða Rós Valdimarsdóttir
Mannfræðingurinn Fríða Rós Valdimarsdóttir upplifir daglega gleði og sorgir á slóðum Jesú Krists. Hún hitar sig líka upp fyrir elliheimilið.



Fríða Rós flutti til Jerúsalem í fyrrasumar þegar eiginmaður hennar, Arnar Gíslason, var ráðinn til UN Women í Palestínu. Þar búa þau með barnungri dóttur sinni og una hag sínum vel.

- Hvað drífur á daga þína í Jerúsalem, Fríða Rós?

„Ég er aðallega í því að skoða mig um, sjá til þess að barninu okkar leiðist ekki og svo hef ég látið gamlan draum rætast sem er að læra að spila bridds. Ég er að hita mig upp fyrir elliheimilið.“

- Hvernig er að búa í þessari sögufrægu borg?

„Það er áhugavert, spennandi, skemmtilegt, erfitt, sorglegt, yndislegt og furðulegt. Stundum allt á sama tíma.“

- Hvernig eru heimamenn í daglegum samskiptum?

„Þeir eru eins misjafnir og þeir eru margir. Jerúsalem er undir stjórn Ísraela en hluti borgarinnar tilheyrir Palestínumönnum og þar bý ég. Alls staðar er her- og lögregluvald sýnilegt og ekki hægt að venjast því að vera á götum úti og ganga á eftir herkrökkum um tvítugt sem öll bera brjálæðisleg skotvopn. Ofbeldi ísraelskra yfirvalda gegn Palestínumönnum er alls staðar og alltumlykjandi. Þau virðast nota öll tækifæri til að gera Palestínumönnum erfiðara fyrir í lífinu. Svo þegar þrengir jafn mikið að fólki og hér í Jerúsalem kemur hunangið út einhvers staðar og við höfum kynnst stórkostlega skemmtilegum og yndislegum manneskjum.“

Fríða Rós segir erfitt að venjast stórum skotvopnum sem meðal annars eru borin af ungum hermönnum um alla borg.
- Hvað hefur komið þér mest á óvart?

„Landnemabyggðirnar. Ég vissi að Ísraelar væru búnir að taka yfir land Palestínumanna og setja upp sínar byggðir, en fjöldi húsa, stærðin á svæðunum og látlaust yfirbragðið á byggðum Jerúsalem er óhugnanlegt og eitthvað sem er erfitt að trúa fyrr en maður sér það með eigin augum. Þá kom svakalega á óvart hvað allt er dýrt hérna. Margt er á sama verði og heima á Íslandi en laun heimafólks langt í frá sambærileg. En vitaskuld er dýrt að halda uppi hernámi með öllum þeim kostnaði sem því fylgir.“



- Hefurðu ferðast um landið helga?

„Já, við fjölskyldan reynum að fara í ferðalag um hverja helgi. Það er nauðsynlegt að komast út úr borginni og anda að sér fersku lofti eyðimerkurinnar fyrir austan, láta sig fljóta í Dauðahafinu, keyra um Vesturbakkann, skella sér á strönd við Miðjarðarhafið eða hreinlega tapa sér í gleði í tívolígarði. Við keyrum oft til Jeríkó en þar er heitara en í Jerúsalem. Um daginn keyrðum við til Jenín og heilluðumst af fegurð landsins á leiðinni. Ég hlakka líka til að að kynnast borginni Nablus betur. Um páskana ætlum við til bæjarins Aqaba sem stendur við Rauðahafið í Jórdaníu. Þaðan munum við fara í dagsferð til Petru sem ég hlakka óskaplega mikið til að sjá.“

Fæðingarstaður Jesú Krists í Betlehem. Þar hefur logað ljós á olíuluktum um aldir alda.
- Hvað er markverðast að sjá og upplifa í kringum þig?

„Hér eru eiginlega perlur út um allt. Það er ómissandi að fljóta í Dauðahafinu og þar fá allir hláturskast í fyrsta skiptið. Við förum með alla sem heimsækja okkur að skoða sögulega staði í Betlehem og til að sjá öll Banksy-verkin sem eru aðallega í Betlehem og Ramallah. Þá er gaman að ganga um gömlu borgina í Jerúsalem og sjá staðina sem við höfum heyrt um síðan við fæddumst. Það er líka mjög sérstakt að ganga um eyðimörkina og upplifa kyrrðina. Að lokum verð ég að nefna Jaffa, bæði til að versla og skoða sig um.“

- Hvernig er að versla í Jerúsalem?

„Jerúsalem er engin sérstök verslunarborg en það er gaman að kaupa þar palestínskt handverk, klúta og minjagripi. Þá er hægt að prútta vel í gömlu borginni.“

- Hvernig eyðir þú frítímanum?

„Aðallega í ferðalög, dagsferðir eða helgarferðir.“

- Hvernig tilfinning er að vera stödd á slóðum Jesú Krists?

„Ég átti einmitt að skila kveðju frá honum ...“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.