Lífið

Verslingar herja á skjái landsmanna

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Nökkvi Fjalar Orrason styrkir einnig Mottumars, hann litaði hárið á sér til styrktar góðgerðarmálum í skólanum og ákvað að snoða sig algjörlega til styrktar Mottumars og er einnig að safna mottu.
Nökkvi Fjalar Orrason styrkir einnig Mottumars, hann litaði hárið á sér til styrktar góðgerðarmálum í skólanum og ákvað að snoða sig algjörlega til styrktar Mottumars og er einnig að safna mottu. mynd/einkasafn
„Fólk er allavega að fíla þetta og við finnum fyrir miklum áhuga,“ segir Nökkvi Fjalar Orrason, forsprakki 12:00-nefndarinnar úr Verzlunarskóla Íslands, en þáttur nefndarinnar sem er henni samnefndur fer í sýningar á Popp TV síðar í mánuðinum. Um er að ræða grínþátt í sketsaformi sem hefur verið vinsæll í Versló síðan nefndin var stofnuð árið 1996.

„Þetta byrjaði árið 1996 og var hugsað sem afþreyingar- og skemmtiþáttur í Versló. Þátturinn hefur stækkað mikið að umfangi jafnt og þétt undanfarin ár og hafa mörg þekkt nöfn komið fyrir í þáttunum,“ útskýrir Nökkvi Fjalar. Bræðurnir Jón Ragnar og Friðrik Dór Jónssynir, Ásgeir Orri og Pálmi Ragnar Ásgeirssynir úr StopWaitGo og Hraðfréttapiltarnir Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson hafa allir komið fram í þáttunum.

Hver þáttur er um 30 til 35 mínútna langur. „Þetta eru sketsar, við sýnum frá böllum og tökum viðtöl við fólk á böllum. Við erum svo alltaf með lag í lok hvers þáttar sem við leggjum mikið í og þau hafa öll vakið mikla lukku,“ segir Nökkvi Fjalar. Lögin voru til að mynda spiluð í dómarahléi á Söngkeppni Samfés og ætlaði allt um koll að keyra. „Aðstandendur Samfés sögðu að þetta hefði verið eins og tvö böll, eitt á föstudeginum og annað í dómarahléinu og það var mjög mikil stemning.“

Í síðustu viku kom út safnplata með vinsælustu lögunum úr 12:00 þáttunum og rennur allur ágóði plötunnar til krabbameinssjúkra barna.

Á hverju ári er ný nefnd kosin og hefst nefndin handa við að smíða gott grín. „Það eru framleiddir tveir þættir á hverri önn. Við Egill Ploder erum í nefndinni núna og vorum líka í fyrra. Við höfum því gert átta þætti og ætlum að gera sex „best of“-þætti fyrir Popp TV,“ útskýrir Nökkvi Fjalar.

Fyrsti þáttur fer í loftið föstudaginn 28. mars klukkan 20.00. Hægt er að forvitnast meira um þættina hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.