Lífið

Skrifa nýja bók í Aþenu

Júlía Margrét Einarsdóttir skrifar
Vvinirnir dveljast utandyra og sóla sig á meðan þeir skrifa.
Vvinirnir dveljast utandyra og sóla sig á meðan þeir skrifa. Mynd/Úr einkasafni
Skáldadúettinn Kjartan Yngvi Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson eru staddir í Aþenu um þessar mundir en þar sitja þeir við skriftir á þriðju bókinni í bókaflokknum „Þriggja heima saga“.

Fyrr komu út í seríunni bækurnar Hrafnsauga og Draumsverð en báðar fengu þær afburðagóðar viðtökur. Innblásturinn í bókaflokkinn sækja þeir félagar meðal annars í norræna goðafræði en einnig hafa þeir verið duglegir við að ferðast til framandi landa til að stunda ritstörf. Draumsverð var, eins og frægt er orðið, skrifuð að hluta til í Transylvaníu en þangað ferðuðust þeir félagar og lentu í miklum ævintýrum sem smituðust út í skáldskapinn. Í þetta sinn varð Aþena fyrir valinu.

„Forngrísk menning var alltaf fyrirmynd einhverra hluta söguheimsins. Við ákváðum því að sækja vatnið beint í brunninn og reyna að gegnsýra okkur með töfrum þessa lands.“

Strákarnir vonast til að bókin líti dagsins ljós snemma í haust og fullyrða að hún muni í öllu falli ná að fljóta í jólabókaflóðinu árið 2014. Skáldin munu dveljast í vöggu siðmenningarinnar þar til bókin er fullunnin og dvölin leggst vel í þá félaga.

„Það er ástæða fyrir því að svo margir íslenskir höfundar eiga sér grískt tímabil. Það er ekki annað hægt en að fá innblástur við að skoða fornminjar þessarar sjö þúsund ára gömlu borgar og við að upplifa iðandi, tifandi mannlífið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.