Lífið

Verslingar flytja inn indversk krydd

Ugla Egilsdóttir skrifar
Sigurbjörn B. Edvardsson, Kormákur Arthúrsson, Guðbjörg Lára Másdóttir, Þórhildur Þórarinsdóttir, Anna Borg Friðjónsdóttir og Adrianna Domisz flytja saman inn krydd.
Sigurbjörn B. Edvardsson, Kormákur Arthúrsson, Guðbjörg Lára Másdóttir, Þórhildur Þórarinsdóttir, Anna Borg Friðjónsdóttir og Adrianna Domisz flytja saman inn krydd. Mynd/Úr einkasafni
„Við fengum þessa viðskiptahugmynd eftir umfjöllun UN Women um sýruárásir á Indlandi,“ segir Sigurbjörn B. Edvardsson, sem kynnir fyrirtækið sitt og félaga sinna á Vörumessu ungra frumkvöðla um helgina. Verzlunarskóli Íslands er einn skólanna sem taka þátt í Vörumessunni, sem er haldin í tengslum við námskeið Fyrirtækjasmiðjunnar. Nemendur stofna fyrirtæki og reka það í þrettán vikur.

„Þarna tvinnast saman það sem krakkarnir hafa lært síðustu ár,“ segir Guðrún Inga Sívertsen, kennari í Verzlunarskólanum. „Markmiðið með verkefninu er að læra að koma hugmynd í framkvæmd. Krakkarnir fá viðskiptahugmynd, stofna fyrirtæki, ráða í stöður innan fyrirtækisins og framleiða vöru eða þjónustu, eða kaupa vöru til endursölu. Þessa dagana eru starfrækt tuttugu fyrirtæki í Versló,“ segir Guðrún Inga.

Guðrún Inga Sívertsen kennir við Verslunarskóla Íslands.MYND/ÚR EINKASAFNI
Fyrirtæki Sigurbjarnar og félaga hans heitir Krummi. „Hugmyndin var að stofna, í samvinnu við hjálparsamtök á Indlandi, vinnustað fyrir konur í Mumbai sem hafa orðið fyrir sýruárás. Þær fá vinnu við að pakka inn kryddi sem við sendum á vinnustaðinn, og við borgum þeim sanngjörn laun fyrir. Kryddið kaupum við frá indverskum bændasamtökum. Við hittum stjórnarformann bændasamtakanna á ráðstefnu í Nürnberg í Þýskalandi. Við fundum með mögulegum fjárfestum á næstu dögum,“ segir Sigurbjörn.

Verkefni nemenda eru fjölbreytt. „Meðal annars eru saumaðar og hannaðar íþróttabuxur, bindi saumuð og hönnuð, gefinn út geisladiskur, slaufuherðatré búið til og tunguburstar seldir,“ segir Guðrún Inga Sívertsen. Alls verða 35 fyrirtæki, stofnuð af nemendum úr ýmsum framhaldsskólum, kynnt í Smáralind um helgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.