Lífið

Atvinnutónlistarmaður frá 6 ára aldri

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hér spila Björn Thoroddsen og Tommy Emmanuel saman á tónleikum í Háskólabíói árið 2011. Þeir endurtaka leikinn um næstu helgi.
Hér spila Björn Thoroddsen og Tommy Emmanuel saman á tónleikum í Háskólabíói árið 2011. Þeir endurtaka leikinn um næstu helgi. mynd/einkasafn
„Ég fékk fyrsta gítarinn árið 1959, þegar ég var fjögurra ára gamall og hef ekki sleppt honum síðan,“ segir ástralski gítarsnillingurinn Tommy Emmanuel en hann er væntanlegur til landsins í næstu viku og heldur tónleika í Háskólabíói 8. mars. Hann kemur úr músíkalskri fjölskyldu og lék fjölskyldan saman sem hljómsveit.

„Við lékum öll á hljóðfæri, spiluðum úti um allt og reyndum að lifa á tónlistinni,“ segir Tommy og bætir við að eini munurinn frá þeim tíma til dagsins í dag sé að nú sé hann einn á tónleikaferð. „Í dag fæ ég betri laun og gisti á flottari hótelum.“

Tommy er þó ekki alltaf einn á ferð. „Konan mín er með mér og líka tveir aðstoðar-/umboðsmenn. Ég er einnig með 3 gítara,“ bætir Tommy við. Kona Tommys, Jane Emmanuel, kann einnig aðeins á gítar en hún er hans helsti aðstoðarmaður og sér meðal annars um að búa til myndbönd, vinna þau og setja á netið. „Ég hef gaman af því að setja myndbönd á netið og kann vel við þessa nýju stefnu.“ Þá aðstoðar hún eiginmann sinn í einu og öllu á tónleikaferðalögum.

Tommy er stórstjarna á netinu og er með yfir tólf milljónir áhorfa á aðgangi sínum á vefsíðunni YouTube. Þar fyrir utan er fjöldi myndbanda sem ekki eru skráð á hann og áhorfin því mun fleiri en tólf milljónir. „Ég er gamaldags og hafði ekki hugmynd um vinsældir mínar á YouTube. Á árunum 2005 til 2006 var ég farinn að selja upp á stórtónleika í Evrópu og spurði því umboðsmanninn minn hvernig á þessu stæði. Þá svaraði hann að ég væri með margar milljónir áhorfa á YouTube,“ útskýrir Tommy.

Hann hefur spilað úti um allan heim síðan á níunda áratugnum en byrjaði ekki að fylla stórar tónleikahallir fyrr en á árunum 2003 til 2004, síðan þá hefur leiðin bara legið upp á við.

Tommy hélt tónleika á Íslandi 9. janúar árið 2011 fyrir fullu Háskólabíói. „Þegar ég fékk tölvupóst varðandi Íslandsferðina, þá sagði ég við sjálfan mig, vá, ég hef aldrei komið þangað. Ég elska Ísland og hlakka mikið til að koma aftur.“

Á tónleikunum árið 2011 léku Tommy og Björn Thoroddsen saman, eru þeir miklir vinir? „Ég sá myndbönd af honum áður en ég kom til Íslands og síðan þegar ég hitti hann urðum við strax góðir vinir,“ segir Tommy um vinskapinn.

Björn mun hita upp fyrir Tommy en þá ætla þeir einnig að taka nokkur lög saman á tónleikunum. „Ég hlakka svakalega til, þetta er það flottasta sem maður kemst í,“ segir Björn Thoroddsen spurður út í samspilið.

Tommy kemur hingað til lands föstudaginn 7. mars, daginn fyrir tónleikana, en stefnt er á að hann verði með kynningu í Tónstöðinni síðdegis en það liggur þó ekki fyrir sem stendur. Miðasala er á midi.is.

Íslenskir tónlistarmenn dást að Tommy

Sigurgeir SigmundssonVisir/GVA
Sigurgeir Sigmundsson:

„Margir hafa sennilega velt því fyrir sér að losa sig við hljóðfærið þegar þeir sáu hann fyrst.

Ég var einn af þeim.

Hann er náttúrulega algjörlega magnaður spilari.

Hann hefur á sinn persónulega hátt náð einstökum tökum á hljóðfærinu.“

Björgvin HalldórssonMynd/Rósa
Björgvin Halldórsson:



„Hann er einn af fimm bestu kassagítarleikurum heimsins.

Ég sá hann þegar hann kom hingað fyrst.

Ég hafði sérlega gaman af því þegar Bjössi vinur minn steig á svið með honum.

Það var gaman að sjá að Bjössi hafði í fullu tré við hann.

Hann er úr annarri vídd hann er svo góður.“

Björn Thoroddsenvisir/GVA
Björn Thoroddsen:



„Ég heyrði fyrst af þessum snillingi í kringum árið 2004.

Ég var mikið á ferðinni á þessum tíma og keypti DVD-disk með honum, setti diskinn í tækið og það lá við að ég hætti að spila.

Ég þurfti að peppa mig mikið upp til að spila aftur.

Þetta var alveg nýtt og það þarf enga smá orku til að spila í tvo klukktíma, einn á sviðinu.“

Kristján GrétarssonMynd/Einkasafn
Kristján Grétarsson:



„Mögulega einn besti gítarleikarinn í „acoustísku“ deildinni og stórkostlegur skemmtikraftur.

Ég hef séð ansi mörg vídeó af honum og vonast til þess að fá að sjá hann næst.

Það eru algjör forréttindi að fá mann af þessu kalíberi til landsins.

Hann og Guthrie Govan eru mínir uppáhaldsgítarleikarar.“

Smári Tarfur JósepssonMynd/Einkasafn
Smári Tarfur Jósepsson:



„Hann er skemmtikraftur fastur í líkama gítarleikara.

Hann er einstakur sýningargripur.

Hann er með þvílíka tækni að maður stendur agndofa yfir því sem hann getur gert.“
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.