Lífið

Ungur á uppleið

Baldvin Þormóðsson skrifar
Grettir Valsson er frambærilegur leikari.
Grettir Valsson er frambærilegur leikari. mynd/jón páll eyjólfsson
„Ég átti fyrst ekki að vera í verkinu en leikstjóranum leist svo vel á mig þegar ég mætti og fór með textann að mér var bætt við,“ segir hinn tólf ára Grettir Valsson en hann leikur í sýningunni Dagbók Djazzsöngvarans þessa daganna.

Verkið skrifaði faðir Grettis, Valur Freyr Einarsson en hann leikur einnig í sýningunni ásamt syni sínum og Kristbjörgu Kjeld.

„Ég leik semsagt sjö ára strákinn Harald, en Haraldur er pabbi aðalhlutverksins sem heitir Ólafur og pabbi minn leikur hann,“ segir Grettir og bætir því við að það getur verið smá ruglingslegt að leika pabba, pabba síns.

„Ég leik þá Harald í fortíðinni þegar hann er sjö ára,“ segir ungi leikarinn. „Fyrst átti pabbi minn, Valur, að fara með þær línurnar en ég fékk að koma í prufu og prófa að fara með þær og það gekk svo vel að ég fékk hlutverkið,“ segir Grettir sem er alls ekki óvanur leikari.

Grettir og faðir hans, Valur.mynd/Jón Páll Eyjólfsson
Finnst gaman að leika

„Mér finnst rosalega gaman að leika,“ segir Grettir sem hefur leikið í sýningum á borð við Oliver Twist, Allir synir mínir, Galdrakarlinn í Oz, Dýrin í Hálsaskógi og Mary Poppins. 

„Mér fannst skemmtilegast að leika í Mary Poppins,“ segir ungi leikarinn en hann lék stórt hlutverk í söngleiknum. „Ég lék Michael, þannig að ég var eiginlega á sviðinu allan tímann sem var mjög gaman.“ 

Leikstjóri Dagbókar Djazzsöngvarans er Jón Páll Eyjólfsson og finnst Grettir hann vera hinn fínasti leikstjóri. 

„Hann fer öðru vísi leiðir en hinir leikstjórarnir sem ég hef unnið með,“ segir Grettir. „Hann leyfir okkur stundum pínu að spinna og bætir við þeim hlutum sem honum líst vel þá,“ 

Aðspurður hvort að hann hafi verið stressaður fyrir frumsýningu verksins sem fór fram í gær segir Grettir vera miklu frekar spenntur en stressaður. 

„Af öllu sem ég geri finnst mér langskemmtilegast að leika.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.