Lífið

Engin tvö Frjálsmen eins

Sólveig Gísladóttir skrifar
Erla viðar að sér perlum úr ýmsum áttum og leggur mikla áherslu á að hafa úr sem mestu að velja.
Erla viðar að sér perlum úr ýmsum áttum og leggur mikla áherslu á að hafa úr sem mestu að velja. vísir/GVA
Erla Sigurlaug Sigurðardóttir perlar hálsmen undir nafninu Frjálsmen. Innlásturinn fær hún meðal annars frá grænlensku og afrísku perluskrauti.

Nafnið Frjálsmen varð til þegar ég var að hekla hálsmen fyrir nokkrum árum. Útkoman var mismunandi í hvert sinn enda notaði ég aldrei uppskrift. Halldóra frænka mín kom með hugmyndina að þessu nafni og mér fannst það skemmtilegt enda rýmar Frjálsmen við hálsmen og lýsir einnig þeirri tilfinningu sem ég vil vekja,“ segir Erla sem starfar í markaðsdeild Icelandair Hotels en nýtir flestar lausar stundir til handavinnu. „Ég verð alltaf að vera með einhver hliðarverkefni,“ segir Erla sem gefið hefur út tvær bækur með frænku sinni, Prjónaperlur og Fleiri prjónaperlur.

Erla heklaði mikið og seldi, en hætti því um tíma. „Það má eiginlega segja að ég hafi heklað yfir mig,“ segir hún glettin en þá tók líka við nýr kafli er hún flutti til Ástralíu í nám. Í haust fylltist hún andagift á ný en nú eiga perlur hug hennar allan. „Það tók mig dálítinn tíma að finna út úr því hvernig best væri að hnýta perlurnar saman og það útheimti mikla þolinmæði,“ segir hún og hlær. Aðferðin sem Erla notar er heimatilbúin. „Það eru margir að þræða perlur upp á band en mig langaði að gera eitthvað öðruvísi, enda er það mitt mottó í lífinu að gera það skemmtilegt.“ Innblásturinn að hönnuninni fær hún meðal annars frá klassísku grænlensku og afrísku perluskrauti.

Erla segir frelsið mikið þegar kemur að því að hanna menin. „Perlurnar eru mismunandi á lit og stærð og með fjölbreyttri áferð, vaxaðar, lakkaðar og bæsaðar,“ lýsir hún og bætir við að ekkert hálsmen verði í raun alveg eins og það næsta.

Fleiri upplýsingar um Frjálsmen Erlu má finna á Facebook en ekki er langt í að menin verði að finna í helstu hönnunarverslunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.