Lífið

Fullkomin blanda af aga og frelsi

Ugla Egilsdóttir skrifar
Guðbjörg hefur áratugalanga reynslu af því að kenna ballett. Hér er hún ásamt Mariu.
Guðbjörg hefur áratugalanga reynslu af því að kenna ballett. Hér er hún ásamt Mariu. FRÉTTABLAÐIÐ/DANÍEL
„Ég var að skoða gömul ballettmyndbönd á YouTube þegar það poppaði upp auglýsing frá Ballettskóla Guðbjargar Björgvins þar sem voru auglýstir tímar í fullorðinsballett. Ég trúði varla mínum eigin augum, ég var svo glöð,“ segir Maria Polgáry, nemandi í fullorðinsballett í Ballettskóla Guðbjargar Björgvins.

Maria fór í prufutíma, og hefur sótt tíma tvisvar í viku í tvö eða þrjú ár. „Ég var búin að leita svo lengi að skóla sem kenndi fullorðinsballett, án árangurs, að ég gafst upp fyrir nokkrum árum. Ég var þrítug, og hugsaði sem svo að ég ætti aldrei eftir að finna neinn sem vildi kenna mér ballett af því að ég væri allt of gömul.“





Maria starfar sem þýðandi og höfðar ballettinn til hennar.FRÉTTABLAÐIÐ/DANÍEL
Maria æfði handbolta þegar hún var lítil. „Ég æfði handbolta í fimm eða sex ár. Á táningsaldri dansaði ég líka hipphopp og smá salsa. Síðan prufaði ég ballettinn þegar ég var sextán ára, og hann smellpassaði fyrir mig. Það er besti dansinn fyrir mig. En mér fannst kennarinn ekki skemmtilegur, svo ég hætti. Ég saknaði þess samt að dansa ballett í mörg, mörg ár. Það er eitthvað í eðli ballettsins sem höfðar sterkt til mín. Hreyfingarnar eru svo fallegar og harmónískar, fullkomin blanda af aga og frelsi. Það er eitthvað rosalega fallegt við þetta,“ segir Maria.

Guðbjörg Björgvinsdóttir ballettkennari hefur boðið upp á ballett fyrir fullorðna í mörg ár. „Í gegnum árin hafa mestmegnis konur komið á námskeiðin. Einn og einn karlmaður hefur slæðst með. Aldur þátttakenda hefur verið frá tvítugu og upp í konur á sjötugsaldri. Þetta er bæði fyrir algjöra byrjendur, og einnig fyrir aðra sem hafa verið í ballett áður og vilja rifja upp sporin og vera í hefðbundnum balletttímum. Það er alltaf töluverður fjöldi sem sækir þessa tíma. Í ballett eru bæði liðkandi og styrkjandi æfingar.“

Auk Ballettskóla Guðbjargar Björgvins er hægt að æfa klassískan ballett fyrir fullorðna í Ballettskóla Sigríðar Ármann. Einnig er boðið upp á svokallað Ballet Fitness í Hreyfingu og í Ballettskóla Eddu Scheving.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.