Lífið

Norræn tónleikaferð endar hér á landi

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Rafdúettinn Good Moon Deer kemur fram á Nordisk 2014 tónleikferðalaginu.
Rafdúettinn Good Moon Deer kemur fram á Nordisk 2014 tónleikferðalaginu. mynd/einkasafn
Norræna tónleikaferðin Nordisk 2014 nær til Íslands í dag og eru fyrirhugaðir tónleikar á Græna hattinum á Akureyri í kvöld og á Harlem Bar í Reykjavík annað kvöld.

Nordisk 2014 er samnorræn tónleikaferð um Danmörku, Færeyjar og Ísland. Hljómsveitirnar koma frá Danmörku, Noregi, Færeyjum og Íslandi og eru Sekuioa frá Danmörku, Sea Change frá Noregi, Byrta frá Færeyjum og Good Moon Deer frá Íslandi.

„Þetta er danskt batterí, sem hefur það markmið að fara með ungar og efnilegar hljómsveitir á staði sem eru ekki í alfaraleið. Þær hafa verið að spila í litlum bæjum hér og þar í Danmörku og hafa ferðast saman síðan um miðjan janúar,“ segir Baldvin Esra tónleikhaldari um ferðalagið.

Markmið tónleikaferðalagsins er að kynna samnorræna menningu. „Það var nefnd í Danmörku sem valdi þær hljómsveitir sem fengu að fara í ferðalagið og að þessu sinni var hljómsveitin Good Moon Deer frá Íslandi valin.“

Íslenski rafdúettinn Good Moon Deer er skipaður Guðmundi Inga Úlfarssyni á hljóðgervla og Ívari Pétri Kjartanssyni á trommur. Good Moon Deer leikur sjónræna og óhefðbundna raftónlist sem daðrar jafnt við djass og teknó. Good Moon Deer hefur komið fram á tónlistarhátíðum á borð við Iceland Airwaves, Reykjavík Music Mess og Lunga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.