Innlent

Salómonsdómur sem hægt er að endurskoða

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á suðausturhorni Suðurgötu og Hringbrautar í Reykjavík. Hér var strætóskýli sem farið var að láta á sjá vegna sóðaskapar reykingafólks.
Á suðausturhorni Suðurgötu og Hringbrautar í Reykjavík. Hér var strætóskýli sem farið var að láta á sjá vegna sóðaskapar reykingafólks. Fréttablaðið/Valli
Strætóferðalangar á suðausturhorni Suðurgötu og Hringbrautar í Reykjavík hafa í vetur þurft að vera án biðskýlis sem þar hefur alla jafna verið.

Frank Arthur Blöndahl Cassata hljóðmaður segist hafa fengið þau svör við fyrirspurnum sínum um málið að strætóskýlið hafi verið fjarlægt vegna tíðra kvartana yfir reykingum.

„Ég vænti þess ekki að þeim sem kvörtuðu yfir reykingunum þyki þetta ásættanleg niðurstaða,“ segir hann í orðsendingu til blaðsins.

„Þetta er eins og barn sé skorið í tvennt í forræðisdeilu, allir tapa,“ segir hann og vísar í orðum sínum til sögunnar um dóm Salómons konungs, sem beitti aðferðinni til að komast að því hver væri réttilega móðir barns sem tvær sögðust eiga.

Þórhallur P. Halldórsson, deildarstjóri biðskýladeilar Strætó bs., segir skýlið hafa verið farið að láta á sjá, en í kring um það hafi verið gífurlegar reykinginar.

„Ég veit svo sem ekki hvaðan það var komið, en stubbafarganið þarna var rosalegt og ástandið ógeðslegt,“ segir hann og bætir við að honum, sem hafi reykt í 45 ár hafi meira að segja ofboðið.

„Síðan erum við í vetur búin að taka skýlið í gegn, skipta um í því plötur og þess háttar. Núna stendur það svo heima í skúr nýmálað og fínt.“

Í skoðun sé svo hvort skýlið verði aftur sett upp á sínum gamla stað. „Um það þarf ég að ráðgast við mína yfirmenn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×