Skoðun

Dauðinn dónalegi

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Þegar gamla kisan okkar, hún Krísurófa, var orðin um það bil hundrað ára í mannárum talið lagðist hún í sína kisukör og mornaði þar og þornaði, hætti að nærast, hætti að mjálma, hætti meira að segja að vera hvumpin. Þá var ekki um annað að ræða en að fara með hana til dýralæknisins. Ég hélt á henni meðan konan gaf henni náðarsprautuna og hún dó í fanginu á mér. Svo fór ég með hana heim og gróf hana í beðinu undir stofuglugganum. Það var rigning. Ég raulaði yfir henni Nú legg ég augun aftur en yngri dóttir mín stóð í gluggakistunni hinum megin við glerið og fylgdist með, söng svo líka yfir kisu lagið Attikattínóa.

Svo var þetta búið, við settum kross og kringum leiðið óx með tíð og tíma ókennilegur arfi sem ég kann engin skil á en guð býr í gróðurmoldinni og ekki í mínum verkahring að hlutast of mikið til um það.

Alvaldið starfar án strits

Lífsins gangur. Gíraffi að nafni Maríus var á dögunum aflífaður í dýragarði í Kaupmannahöfn. Þetta var opinber aftaka, og ekki nóg með það, heldur var gíraffinn krufinn á eftir svo að börnin mættu fræðast um samsetningu hans – og voru víst áhugasöm – og svo var honum að sögn fleygt fyrir ljónin eins og hverjum öðrum Spartakusi.

Vesalings Maríus hlaut þannig enga virðulega útför með sálmasöng og syrgjendum. Það varð líka af mikið fjaðrafok um gjörvöll Vesturlönd meðal fólks sem taldi að dauðinn eigi ekkert erindi á almannafæri – dýragarðsstjórinn var boðaður snarlega í yfirheyrslu hjá sjónvarpsmanni sem spurði höstuglega hvað það ætti að þýða að láta börn horfa upp á lífsins gang, sjá dauðann að störfum.

Fólk sýndi því skilning að Maríus ætti sér ekki framtíð meðal hinna gíraffanna þarna á þessum slóðum vegna hættu á innræktun – og hinir gíraffarnir gætu sennilega ekki útkljáð málið á sína gíraffavísu; með einvígi þar sem hálsinn er helsta vopnið – og hann svo sendur eitthvert burt út á örkina; hvert gæti slíkur gíraffi svo sem farið: til Hvidovre?

Það var hitt sem fór fyrir brjóstið á fólkinu: að hann skyldi ekki aflífaður á afviknum stað. Dauðinn má vissulega hafa sinn gang en óþarfi er að hafa hann fyrir augunum á okkur. Dauðinn særir blygðunarkennd okkar; dauðinn er síðasta tabúið.

Nútímastríð eru háð á klínískan og snyrtilegan hátæknihátt utan kastljóss fjölmiðlanna, með svokölluðum drónum, þar sem við eigum ekki að þurfa að horfa upp á nokkurn mann drepa annan mann. Engin föðurlandssvik þykja verri en þegar lekið er myndefni af hernaði í fjölmiðla. Aflífun óæskilegra manna á að fara fram utan við skynsvið okkar; dauðinn er eina nektin sem eftir er sem þykir klúr; dauðinn er það síðasta sem þykir dónalegt.

Sú var tíð…

Sú var tíð að dauðinn var partur af lífinu. Forðum tíð fæddist fólk á heimilunum, lifði þar og dó þar, lá þar dáið um hríð þangað til það var sett í gröfina og gekk svo væntanlega aftur þar, hefði það skapferli til þess. Orka viðkomandi einstaklings fékk nógan tíma til að setjast og taka sér bólfestu í húsgögnum, innviðum og vitund ástvina. Dauðinn hafði sinn stað í lífinu. Börn sáu dýr deyja – dýr sem þau unnu og höfðu átt sínar stundir með. Börn sáu ástvini deyja og skynjuðu nálægð þessara einstaklinga lengi eftir dauðann. Dauðinn var hinn eðlilegi lokapunktur lífsins – og upphafsreitur nýrra leiðangra. Margt fólk trúði því að sálin – kjarni vitundarinnar hjá fólkinu – væri ódauðleg og færi með einhverjum óskilgreindum hætti í aðra staði, aðrar víddir, sem ekki hvarflaði að neinum að hvíldi á vísindaleg sönnunarskylda.

Sjálfur hef ég horft á einkennilega arfann vaxa á leiði hennar Krísurófu gömlu og er mér nægilegur vitnisburður um ódauðleik sálarinnar.




Skoðun

Skoðun

Verður þér að góðu?

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, ,Hólmfríður Sigþórsdóttir skrifar

Sjá meira


×