Lífið

Prins Póló-súkkulaðið hefði fullkomnað útgáfusamninginn

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hljómsveitin Strigaskór nr. 42 hefur gert útgáfusamning við pólskt útgáfufyrirtæki.
Hljómsveitin Strigaskór nr. 42 hefur gert útgáfusamning við pólskt útgáfufyrirtæki. mynd/einkasafn
„Þetta er frábær samningur fyrir okkur og við erum mjög sáttir,“ segir Ari Þorgeir Steinarsson, trommuleikari hljómsveitarinnar Strigaskór nr. 42, en sveitin hefur gert útgáfusamning við pólska útgáfufyrirtækið Hellthrasher Production.

Hljómsveitin gaf út plötuna Armadillo í september á síðasta ári en þá eingöngu á rafrænu formi, en pólska útgáfufyrirtækið ætlar að gefa plötuna út á geisladiski.

Um er að ræða samning til tveggja ára og mun nýjasta plata sveitarinnar koma út víðsvegar í heiminum á geisladiski.

„Það er ekki komin dagsetning á hvenær platan kemur út en hún kemur líklega út um mitt ár.“ Hún mun að öllum líkindum koma fyrst út í austur Evrópu en þó einnig á Íslandi.

„Við erum fyrsta hljómsveitin sem gerir samning við fyrirtækið og er ekki algjörlega 110 prósent öfga-metal hljómsveit þannig að við erum aðeins að róa fyrirtækið,“ segir Ari léttur í lundu. Hann bætir við að sveitin hafi einnig reynt eftir fremsta megni að fá talsvert magn af Prins Póló-súkkulaði með samningnum. „Prins Pólóið hefði fullkomnað samninginn en við erum samt sem áður mjög sáttir.“

Strigaskórnir koma fram á tónleikum á Dillon í kvöld ásamt hljómsveitinni Skepnu. Þá er sveitin einnig bókuð á rokktónlistarhátíðina Eistnaflug sem fram fer í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.