Lífið

Það eru verðmæti allt í kringum okkur

Marín Manda skrifar
Mæðgurnar Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir og Kristín Helga Guðmundsdóttir.
Mæðgurnar Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir og Kristín Helga Guðmundsdóttir. Fréttablaðið/Daníel Rúnarsson
„Hugmyndin að markaðnum kviknaði þegar Karen Lind bloggari hringdi til okkar og spurði hvort við gætum tekið á móti snyrtivörum sem hún væri ekki að nota. Við vorum mjög þakklát fyrir það og fljótlega læddist þessi gjörningur út í bloggheiminn og leiddi til sjónvarpsviðtals í Kastljósi,“ segir Kristín Helga Guðmundsdóttir verkefnastjóri í Konukoti.

„Það er hlýhugur á bakvið gjafirnar og það liggja verðmæti allt í kringum okkur sem geta nýst gestum Konukots mjög vel.“ Kristín Helga segir að flóamarkaðurinn hafi orðið til þegar góðgerðarnefnd eRótarýklúbbsins starfaði með sjálfboðaliðum Konukots við að setja markaðinn á laggirnar ásamt því að fleiri konur fóru að hreinsa til í skápunum sínum.

Umframflíkur og fylgihlutir sem nýtast ekki í Konukoti eru til sölu ódýrt á flóamarkaðnum en ágóðinn rennur til starfsemi Konukots. Flóamarkaðurinn er opinn frá 12-17 alla laugadaga í Eskihlíð 4.

Konukot er neyðarathvarf og hugsunin á bakvið það er að sinna tímabundið grunnþörfum kvenna sem eiga ekki í nein hús að venda með húsaskjól, mat og hreinlæti. „Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Rauði krossinn eru að greiða fyrir reksturinn og það er okkar mál að láta það ganga upp. Allt svona hjálpar starfseminni en að meðaltali eru 30 starfsmenn sem sinna sjálfboðastarfi í Konukoti ásamt starfsfólki.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.