Lífið

Bækur gefnar út á fullu tungli

Ugla Egilsdóttir skrifar
Hermann Stefánsson rithöfundur gisti í spennustöð.
Hermann Stefánsson rithöfundur gisti í spennustöð.
Hermann Stefánsson rithöfundur og rapparinn Kött Grá Pjé gefa út bækur hjá forlaginu Tunglinu á næsta fulla tungli. Haldið verður upp á það í kvöld með SlíjmTunglkvöldi í samvinnu við Slíjm. Bók Hermanns heitir Spennustöðin: stílabók, og var upphaflega handskrifuð í stílabók.

„Ég átti erindi norður á Akureyri og fékk gistingu í húsi sem ég þekkti mjög vel. Eitt herbergið hafði ég þó aldrei komið inn í vegna þess að þar var spennustöð í gamla daga en síðan var innréttað þar herbergi. Þannig að ég gisti núna í spennustöðinni. Það var svolítið mögnuð upplifun, þannig að ég keypti mér stílabók og skrifaði Spennustöðina í hana.“

Bókin var ekki skrifuð með útgáfu í huga. „Spennustöðin er eiginlega dagbókin mín. Sumt í henni eru bernskuminningar, annað er meira stemning. Bókin er mjög einlæg, nálæg og persónuleg. Það er enginn skáldskapur í henni. Þetta er leit að einhverju sönnu, einhverjum kjarna. Hún fjallar meðal annars um pabba minn sem dó á síðasta ári, en hann ólst upp í þessu húsi,“ segir Hermann.

Kött Grá Pjé gefur einnig út bók þetta kvöld, en hann er betur þekktur sem rappari. „Bókin hans heitir Stálskip: nokkur ævintýri. Í henni eru skemmtilegir smáprósar sem minna mig svolítið á Julio Cortázar, sem er argentínskt skáld.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.