Lífið

Fyrirgefningin er í raun mjög fyndin

Ugla Egilsdóttir skrifar
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir er höfundur Fyrirgefðu ehf.
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir er höfundur Fyrirgefðu ehf. Mynd/Pjetur
„Í heimi verksins hafa alls ekki allir efni á að fyrirgefa, aðeins hinir ríku,“ segir Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, höfundur og leikstjóri sýningarinnar Fyrirgefðu ehf. sem frumsýnd verður í Tjarnarbíói á föstudaginn. „Leikritið gerist á óræðum tíma þar sem fyrirtækið Fyrirgefðu ehf. hefur milligöngu um sættir í deilumálum. Hins vegar geta fátækir sótt í minningarsjóð.

Þóra Karítas leikur starfsmann sem er nýbyrjaður hjá fyrirtækinu og hefur það hlutverk að velja úr innsendum umsóknum í minningarsjóðinn,“ segir Þórdís Elva. „Þegar hún fer í gegnum nýja umsókn byrjar ný saga. Þessar sögur eru leiknar, þær gefa innsýn í líf margra, og sýna okkur fyrirgefninguna frá ólíkum sjónarhornum.

Sögurnar í umsóknunum eru byggðar á viðtölum sem við tókum við yfir sjötíu manns á aldrinum 5-85 ára. Við gættum þess að allir ættu sér fulltrúa í hópnum. Þarna á meðal voru innflytjendur, mæður, unglingar, börn, prestar, sáttasemjarar, fíklar og eldri borgarar. Allur skalinn. Við notuðum síðan sögur þeirra sem við tókum viðtöl við, með þeirra leyfi, þannig að verkið er samansafn af sögum úr ofboðslega ólíkum áttum,“ segir Þórdís Elva.

Leikritið er ekki væmið. „Í raun er fyrirgefningin mjög fyndin. Hún berskjaldar fólk. Það er erfið raun að játa að manni hafi orðið á í messunni. Fólk verður klaufalegt þegar stoltið þvælist fyrir því. Við beitum því húmor og kaldhæðni óspart í verkinu,“ segir Þórdís Elva.

Hún segir að fyrirgefningin sé oft misnotuð. „Hún er oft ekki einlæg. Fólk í áhrifastöðum segir oft: „Hafi ég gert mistök biðst ég afsökunar,“ í stað þess að segja: „Ég gerði mistök,“ þá er ansi djúpt á fyrirgefningarbeiðninni sjálfri, og allt snýst um tilfinningalíf þess sem upplifði hlutinn en ekki um gjörðir þess sem biðst fyrirgefningar,“ segir Þórdís Elva.

„Til þess að auglýsa leikritið fengum við fólk til að taka upp játningar á myndband,“ segir Þórdís Elva. „Síðan bjuggum við til kynningarmyndband fyrir Fyrirgefðu ehf., eins og um raunverulegt fyrirtæki væri að ræða, og settum það í loftið. Það fékk átta þúsund áhorf á þremur sólarhringum. Við leyfðum fólki að velkjast í vafa um hvort þetta væri raunverulegt fyrirtæki. Það vakti mikla eftirtekt og skiptar skoðanir, sem er gott.

Ég vil meina að leikhúsið eigi að vera í samtali við samtíðarfólk sitt. Þegar listinni tekst best upp fær hún fólk til að spyrja sig áleitinna spurninga um samtímann,“ segir Þórdís Elva.

Fyrirgefðu ehf. verður frumsýnt föstudaginn 14. febrúar í Tjarnarbíói klukkan 20.00. Takmarkaður sýningafjöldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.