Lífið

Býr til skartgripi úr hornum

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Þórdís Sigmarsdóttir vinnur men úr horni í frístundum á gullsmíðaverkstæði föður síns.
Þórdís Sigmarsdóttir vinnur men úr horni í frístundum á gullsmíðaverkstæði föður síns. Mynd/Valli
Ég byrjaði á þessu fyrir fjórum árum. Pabbi er gullsmiður og einn daginn fór ég að fikta með horn sem hann átti á verkstæðinu hjá sér. Nú bý ég til hálsmen, eyrnalokka, ermahnappa og armbönd úr kýrhorni, hreindýrshorni og sauðahornum,“ segir Þórdís Sigmarsdóttir, tré- og málmsmíðakennari við Kársnesskóla.

Gripina kallar hún KúMen og segir hornin skemmtilegan efnivið.

„Það er mjög gaman að vinna með horn, fyrir utan lyktina sem fylgir þegar maður slípar það niður. En hornið er tiltölulega sveigjanlegt efni og eins kemur á óvart hvaða litbrigði leynast inni í horninu. Það getur verið grænt innan í hvítu horni og gult innan í svörtu horni. Maður veit það aldrei fyrirfram. Ég lakka ekki munina heldur slípa þá einungis vel niður.“

Annars vegar býr Þórdís til men úr hringjum sem hún raðar saman og hins vegar men úr litlum plötum, sem hún sagar fínleg munstur í, armbönd og ermahnappa.

„Ég fæ græjurnar hans pabba lánaðar og vinn í þessu þegar verkstæðið er laust. Hann vinnur reyndar líka í horn og býr til drykkjarhorn sem hann setur silfur utan um.“

Þórdís segir hornin ekki liggja á lausu og til að byrja með hafi veri erfitt að verða sér úti um efni. Þá sé það talsverð vinna að hreinsa hornin fyrir vinnslu.

„Ég þarf annaðhvort að láta hornin bíða og þorna svo hægt sé að slá innan úr þeim, eða sjóða þau. Ég hef reyndar verið svo heppin að ég hef fengið mikið af þurrum og fínum hornum til að vinna úr, sem fólk gaukar að mér. Það verður líka mikið úr hverju horni svo ég þarf ekki mörg,“ útskýrir Þórdís. „Þetta er dálítið seinleg vinna, en skemmtileg og alls engin kvöð.“

Gripir Þórdísar fást í versluninni Ömmu mús á Laugavegi en nánar má forvitnast um KúMen á Facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.