Lífið

Myndaði M.I.A. á forsíðu Wild Magazine

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Saga Sig býr og starfar í London. Hún hefur getið sér gott orð sem ljósmyndari.
Saga Sig býr og starfar í London. Hún hefur getið sér gott orð sem ljósmyndari. MYND/SagaSig
Ljósmyndarinn Saga Sig myndaði forsíðu nýjasta tölublaðs Wild Magazine, sem er bandarískt glanstímarit.

Forsíðuna prýddi breska tónlistarkonan M.I.A. sem hefur átt mikilli velgengni að fagna um allan heim, en Saga hefur áður fengið boð um að vinna með söngkonunni sem hún gat ekki þekkst.

„Þetta var ótrúlega skemmtilegt,“ segir Saga um myndatökuna. „Ég ber svo mikla virðingu fyrir henni sem listakonu svo það var sérstaklega gaman að fá að vinna með henni,“ heldur Saga áfram.

„Fyrir tveimur árum bað hún mig að taka myndir bak við tjöldin þegar hún skaut hið fræga Bad Girls-myndband með leikstjóranum Roman Gavras. Þetta var í desember og ég var komin til Íslands til að fagna jólunum með fjölskyldunni. Fjárhagsáætlanir verkefnisins gerðu ekki ráð fyrir flugi frá Íslandi til Marokkó svo verkefnið rann út í sandinn,“ útskýrir Saga, en hún býr og starfar í London.

„Mér fannst það svo ótrúlega leiðinlegt því þetta myndband er eitt það flottasta sem gert hefur verið að mínu mati.“

Saga segir myndatökuna hafa gengið vel fyrir sig. 

Forsíðan
„Hún var mjög vingjarnleg. Annars er það hluti af mínu starfi að vera ekkert að kippa sér upp við það þótt fólk sé frægt, og ég passa mig auðvitað á því. Ég verð líka eiginlega að viðurkenna að ég er alveg rosalega ómannglögg og veit yfirleitt ekki hver neinn er,“ segir Saga, létt í bragði.

Saga hefur átt mikilli velgengni að fagna í starfi og hefur meðal annars myndað fyrir Nike Women og Topshop, sem hún segir hafa verið mikilvægt fyrir ferilinn. 

Hún hefur fengið myndir eftir sig birtar í þekktum tímaritum á borð við Vogue Japan og í Dazed and Confused. 



M.I.A.



M.I.A. er breskur listamaður sem öðlaðist frægð í gegnum tónlist, en fæst einnig við myndlist og leikstjórn. 

Hún hóf ferilinn sem kvikmyndagerðarmaður í London en fór fljótlega að leggja áherslu á tónlistarferil sinn og árið 2004 gaf hún út smáskífurnar Sunshowers og Galang sem hlutu góðar viðtökur. 

Síðan hefur M.I.A. meðal annars verið tilnefnd til Óskarsverðlauna, tvennra Grammy-verðlauna og Mercury-verðlaunanna.

Meðal þekktustu laga M.I.A. eru Paper Planes, Bucky Done Gun, Bad Girls og Matangi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.