Lífið

Pörupiltarnir fræða unglinga um kynlíf

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Leikkonurnar Alexía Björg Jóhannesdóttir, María Pálsdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir hér í gervi Pörupiltanna, Nonna Bö, Hermanns Gunnarssonar og Dóra Maack.
Leikkonurnar Alexía Björg Jóhannesdóttir, María Pálsdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir hér í gervi Pörupiltanna, Nonna Bö, Hermanns Gunnarssonar og Dóra Maack. fréttablaðið/pjetur
„Hugmyndin að sýningunni sprettur í raun af annarri sýningu, Homo Erectus, sem við settum upp árið 2011. Unglingar sækja leikhús frekar lítið og okkur fannst vanta svona sýningu,“ segir Sólveig Guðmundsdóttir leikkona og einn höfunda verksins Kynfræðsla Pörupilta sem leikhópurinn Pörupiltar setur upp. Ásamt Sólveigu skipa leikkonurnar Alexía Björg Jóhannesdóttir og María Pálsdóttir leikhópinn Pörupilta og eru þær einnig höfundar verksins.

Leikkonurnar þrjár klæða sig upp sem stráka. „Pörupiltarnir, þeir Nonni Bö,Hermann Gunnarsson og Dóri Maack, eru vel meinandi og hressir. Þeir telja sig vita allt um kynlíf þó að þeir stundi það ekki allir sjálfir,“ útskýrir Sólveig.

Saga Pörupiltanna er þannig að þeir hafa verið lengi á atvinnuleysisbótum og átti því að taka þá af bótum nema þeir færu að sinna samfélagsstörfum. „Þess vegna fóru þeir út í að halda þessa kynfræðslu.“

Sýningin er í raun kynfræðsla og er nemendum í 10. bekk í flestum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu boðið á sýninguna. „Nemendum í 10. bekk er boðið en við verðum líka með opna sýningu í mars. Ef þetta gengur vel getur verið að við förum með sýninguna víðar,“ segir Sólveig.

Verkefnið er styrkt af Hlaðvarpanum, Samfélagssjóði Landsbankans, Sprotasjóði og unnið í samstarfi við Borgarleikhúsið.

Pörupiltarnir fengu ráð frá kynlífssérfræðingnum Siggu Dögg og einnig frá nemendum Kvennaskólans í Reykjavík. „Við erum auðvitað þrjár settlegar mömmur og því gaman að geta brugðið sér í annan karakter. Við fengum ráð og punkta frá mörgum aðilum til að gera sýninguna sem besta.“

Leikkonurnar hófu sitt samstarf sem Pörupiltar árið 2006 og settu, eins og fyrr segir, upp uppistandssýninguna Homo Erectus í Þjóðleikhúskjallaranum árið 2011 með þessar sömu persónur. „Homo Erectus var meira um samskipti kynjanna og þess háttar en sýningin núna er meira um kynlíf og kynfræðslu.“

Kynfræðslan verður frumsýnd á morgun í Borgarleikhúsinu fyrir 10. bekkinga en tvær opnar sýningar verða 23. og 30. mars. „Við sjáum svo til með framhaldið, mögulega gerum við meira úr sýningunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.