Lífið

Trúðatækni eins og að spila djass

Ugla Egilsdóttir skrifar
London kallar Sólveig kynntist trúðatækninni í London.
London kallar Sólveig kynntist trúðatækninni í London. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ég er búin að vera viðloðandi trúðabransann í að verða sautján ár,“ segir Sólveig Guðmundsdóttir leikkona sem verður með námskeið í trúðatækni í Tjarnarbíói í febrúar. Kenndar verða grunntækniæfingar í þrjú kvöld. „Við finnum trúðinn hjá hverjum og einum og þróum hann,“ segir Sólveig. Námskeiðið er öllum opið, en takmarkaður fjöldi sem kemst að. „Það eru enn nokkur pláss laus,“ segir Sólveig.

Leikarar nýta gjarnan trúðatækni. „En þetta er ekki bara fyrir leikara, þetta nýtist í leik og starfi fyrir svo marga,“ segir Sólveig. „Ég hef kennt kennurum. Tónlistarfólk hefur líka lært til trúðs. Kristjana Stefánsdóttir djasssöngkona er til að mynda stórkostlegur trúður. Spuninn og samvinnan í trúðatækninni er svolítið eins og að spila djass. Stjórnendur fyrirtækja í útlöndum eru byrjaðir að nýta sér þessa tækni í auknum mæli. Þetta er auðvitað frábrugðið hefðbundnum framkomunámskeiðum. Tinna Lind Gunnarsdóttir vinkona mín skrifaði meistararitgerð í verkefnastjórnun um trúðatækni í stjórnum fyrirtækja,“ segir Sólveig.

„Þetta er góð æfing í að vera í núinu og að hlusta,“ bætir Sólveig við. „Þú lærir að bregðast við því sem er að gerast í salnum, hvort sem þú ert að flytja fyrirlestur eða leika, eða eitthvað annað. Margt sprettur skemmtilegt upp af mistökum í spunavinnu. Þá er mikilvægt að hlusta vel.“

Námskeiðið verður 17., 18., og 19. febrúar klukkan 18.00 til 21.00. Tekið er við skráningum á námskeiðið á netfanginu sgudmundsdottir@hotmail.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.