Lífið

UMTBS snýr aftur

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Ultra Mega Technobandið Stefán kemur fram á tónleikum í kvöld eftir tveggja ára pásu.
Ultra Mega Technobandið Stefán kemur fram á tónleikum í kvöld eftir tveggja ára pásu. mynd/hörður sveinsson
Við erum að fagna samningi sem við náðum við hagsmunaaðila innan norska tónlistarmarkaðarins,“ segir Sigurður Ásgeir Árnason söngvari hljómsveitarinnar Ultra Mego Technobandsins Stefáns, eða UMTBS.

Um er að ræða norska kynningarfyrirtækið Indianer en það annast kynningarmál fyrir listamenn sem eru á tónleikaferðalagi um Noreg. Arctic Monkeys, Adele, Prodigy og Franz Ferdinand eru á meðal þeirra risanafna í tónlistarheiminum sem fyrirtækið hefur unnið með.

UMTBS gaf fyrir jól út sína aðra breiðskífu sem ber nafnið ! og eru tónleikarnir í kvöld kallaðir útgáfutónleikar. „Þetta er rokkplata og er hún töluvert harðari en fyrri platan okkar,“ segir Sigurður. Með tilkomu samningsins við Indianer fer sveitin í tónleikaferð til Noregs í mars og aftur í sumar.

UMTBS hefur að undanförnu skipt um stíl og hafa tveir nýir meðlimir bæst við hópinn undanfarin ár, þeir Vignir Rafn Hilmarsson á hljómborð og Jón Helgi Hólmgeirsson á gítar. „Við höfum skipt um stíl og höfum til að mynda hent öllum playbökkum og spilum núna allt live. Við erum orðnir rokkaðri.“ Fyrir voru í sveitinni ásamt ofangreindum þeir Arnþór Jóhann Jónsson hljómborðsleikari, Arnar Freyr Gunnsteinsson bassaleikari og Guðni Dagur Guðnason trommuleikari.

Sveitin fór mikinn fyrir nokkrum árum. Plata þeirra, Circus, sat á topplistum víða og kom hljómsveitin fram víða um Evrópu. Hún hefur hins vegar látið lítið fyrir sér fara að undanförnu. „Meðlimir sveitarinnar kláruðu háskólanám og svona í millitíðinni.“

Eins og fyrr segir skipti sveitin nýlega um stíl en margir tengdu sveitina við stöðugt skemmtanahald og glamúrlifnað. Árið 2008 var umboðsmaður sveitarinnar meðal annars dæmdur í fangelsi fyrir eiturlyfjasmygl og bauð útgáfurisinn Universal sveitinni gull og gersemar ef hún skipti upp bandinu og héldi til Þýskalands á vit teknóævintýra, svo dæmi séu nefnd.

„Þetta voru ruglandi tímar því við vorum svo ungir á þessu tímabili.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.