Lífið

Fyrsta viðtalið komst í heimspressuna

Ugla Egilsdóttir skrifar
Fylgist vel með Sveinn Arnarsson fylgist með kassmerkinu #akureyri á twitter.
Fylgist vel með Sveinn Arnarsson fylgist með kassmerkinu #akureyri á twitter. Mynd/Völundur.
„AFP-fréttastofan hafði samband við þetta litla héraðsblað út af viðtalinu,“ segir Sveinn Arnarsson hjá Akureyri vikublaði. Sveinn tók viðtal við Pascal Heyman, fyrrum verkefnastjóra hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. „Ég sá á Twitter að hann væri á Akureyri og kom mér í samband við hann. Við hittumst hér og spjölluðum saman í tvo klukkutíma, sem var afar fróðlegt. Maðurinn er hafsjór upplýsinga um utanríkismál,“ segir Sveinn.

Viðtalið birtist í Akureyri vikublaði. Í kjölfarið hringdu bæði AFP-fréttastofan og þýskur blaðamaður á skrifstofu blaðsins. „Fréttapunkturinn frá sjónarhóli AFP-fréttastofunnar var ásókn Kínverja í landareignir á norðanverðu Íslandi, sem Pascal ræddi um í viðtalinu.“

Björn Þorláksson, ritstjóri Akureyrar vikublaðs skrifaði status um þetta á Facebook. „Þetta er fyrsta viðtalið sem hann tekur og – hann er bara kominn í heimspressuna,“ segir í statusnum. Síðan bætir Björn við að nú liggi leiðin bara niður á við í fjölmiðlabransanum fyrir Svein. „Vonandi er gott útsýni af toppnum. Vel gert,“ skrifar Björn.

„Ef hann segir að þetta sé toppurinn þá er það allt í lagi,“ segir Sveinn. „Maður veit aldrei nema Ellen DeGeneres hringi og bjóði mér í þáttinn,“ segir hann. Sveinn fluttist til Akureyrar fyrir nokkrum árum þar sem hann hefur lagt stund á meistaranám í rannsóknartengdum félagsvísindum með áherslu á byggðafræði. Sveinn hefur verið ritstjóri akv.is í eina viku. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.