Lífið

Langar til að leikstýra Shakespeare

Ugla Egilsdóttir skrifar
Kolbrún Björt væri til í að leikstýra Shakespeare-verki hér heima.
Kolbrún Björt væri til í að leikstýra Shakespeare-verki hér heima. Mynd/Tom Oakes.
„Draumurinn væri að leikstýra einhverri af stóru tragedíum Shakespeare,“ segir Kolbrún Björt Sigfúsdóttir, sem útskrifaðist úr meistaranámi í Shakespeare-leikstjórn frá Háskólanum í Exeter í janúar. Hún veit ekki til þess að fleiri Íslendingar séu menntaðir í Shakespeare-leikstjórn. „Svo getur vel verið að einhver hafi lært þetta án þess að ég viti af því,“ segir Kolbrún. „Ég myndi gjarnan vilja fá tækifæri til þess að leikstýra Shakespeare á Íslandi.“ 

Kolbrún hefur verið afkastamikil eftir að formlegri kennslu lauk og hefur hlotið góða dóma fyrir þau verk sem hún hefur komið að. „Ég hjálpaði Agli Heiðari Antoni Pálssyni við uppsetningu á Frúnni frá hafinu í Svíþjóð, og leikstýrði sýningunni Shakespeare in Hell með Brite Theatre-leikhópnum. Í henni leiðir Aríel úr Ofviðrinu áhorfendur í gegnum níu hringi helvítis Dantes, og þeir hitta fyrir mismunandi Shakespeare-persónur á hverjum stað. Ég skrifaði líka og lék í einleiknum Chet Baker, Love,“ segir Kolbrún.

Hæfileikarík Kolbrún Björt er listrænn stjórnandi Brite Theatre-hópsins sem setti upp Shakespeare in Hell.Mynd/David Johnson.
Eftir jól frumsýndi hópurinn Midsummer Madness nýja leikgerð byggða á Ljóninu, norninni og skápnum eftir C.S. Lewis. „Það er ekki beinlínis næsti bær við Shakespeare, en námið nýtist mér samt við leikstjórnina. Ég lærði að treysta sögunni og textanum í sögunni. Mér finnst gaman að vinna með fólki með bakgrunn í Shakespeare. Það hefur tækni við að segja sögur sem ég kann að meta,“ segir Kolbrún.

Lokaritgerðin hennar fjallaði um eins konar hvað ef-leikhús. „Það er kallað „reimaging. Þá skrifar maður nýtt handrit og setur persónur úr einhverju verki í nýjar aðstæður. Dæmi um þetta er sýning sem ég bjó til með leikhópi og er byggð á Lé konungi. Í þessari útgáfu eru systurnar samankomnar í hreinsunareldinum þar sem þær endurskapa bara þær aðstæður sem ollu voveiflegum dauðdaga þeirra með persónubrestum sínum.“ 

Áður en Kolbrún fór utan að læra lauk hún námi í fræðum og framkvæmd, sem nú heitir sviðshöfundabraut, við leiklistardeild Listaháskóla Íslands. „Þetta eru eins ólíkir skólar í leiklist og hægt er að finna. Það er gaman að blanda þessum tveimur skólum saman. Í Listaháskólanum var gert ráð fyrir að allir viti hvað hefðbundið leikhús er, og það er ráðist strax í að afbyggja það. En við nánari athugun er hefðbundið leikhús flóknara en maður heldur. Það dýpkar skilning manns að læra hvort tveggja,“ segir hún. 

Gagnrýnendur hrifnir af Kolbrúnu Björt

„Chet Baker, Love er einhver áhugaverðasta og óhefðbundnasta leiksýning sem ég hef nokkurn tímann séð.“

-Úr dómi Sabrina Aziz fyrir Exeposé

„Stemningin var óþægileg, sem var viðeigandi. Myrkur, draugalegur rauður glampi og hitastækja sköpuðu helvískan jarðveg fyrir hrollvekjandi atriði.“

-Úr dómi Helen Carrington fyrir Razz Magazine um Shakespeare in Hell.

„Þessi uppsetning er trú anda bókar C.S. Lewis í meiri mæli en nokkur önnur leikgerð sem ég hef séð þrátt fyrir takmarkanir sem sviðið og búningarnir settu.“

-Úr dómi Helen Carrington fyrir Razz Magazine um Ljónið, nornina og skápinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.