Lífið

Stjörnukötturinn Bergur í meðferð

Bergur hefur fengið gott atlæti í Kattholti.
Bergur hefur fengið gott atlæti í Kattholti. Mynd/Einkasafn.
Kötturinn Bergur fær gott atlæti hjá Kattholti eftir að hafa verið á vergangi árum saman.

„Við komum honum undir dýralæknishendur eftir að okkur var tilkynnt um hann,“ segir Halldóra Björk Ragnarsdóttir, starfsmaður Kattholts og formaður Kattavinafélagsins. „Núna er hann í meðferð.“ 

Bergur er með nafntogaðri köttum á landinu. Hann er kenndur við Hnotuberg í Hafnarfirði, því það er hverfið sem hann flakkaði um í minnst átta ár. Bataferli hans er vel skrásett á Facebook og hann á sér marga aðdáendur sem fylgjast í ofvæni með honum batna.

Bergur hefur fengið ýmis meðul við kvillunum sem plaga hann.

„Hann fékk sýklalyf, vítamín, ormalyf, og hefur einnig verið meðhöndlaður við eyrnamaur,“ segir Halldóra. „Svo var hann geltur og rakaður í gær. Feldurinn á honum var mjög illa farinn.“

Halldóra segir að ástandið sem Bergur var í þegar honum var bjargað sé víti til varnaðar fyrir kattaeigendur.

„Þetta sýnir hversu mikilvægt það er að láti gelda fressketti. Svona fer fyrir köttum sem ekki er búið að gelda. Þeir slást við aðra ógelta fressketti, allir að berjast fyrir lífi sínu og um hvern matarbita. Eða þeir lenda á vergangi, eins og Bergur.“ Feldur Bergs bar þess glögglega merki að hann hefur lent í slagsmálum. „Það voru kleprar á feldinum þegar hann kom hingað fyrst,“ segir Halldóra.

Bergi er farið að líða betur. „Hann fær góða umönnun hjá starfsfólki Kattholts,“ segir Halldóra.

„Hann er farinn að gefa sig meira að okkur. Maður finnur alveg að hann hefur einhvern tímann átt heimili,“ segir Halldóra. „Ef þetta væri alveg villtur köttur þá væri erfiðara að nálgast hann. Bergur lætur alveg klappa sér. Þú klappar ekki alveg villtum ketti,“ segir Halldóra.

Halldóra er vongóð um að Bergur eigi bjarta framtíð fyrir höndum. „Enn er þó mikið verk að vinna,“ segir Halldóra. Kötturinn á ekki eins auðvelt með að treysta fólki og kettir sem hafa átt náðugri daga.

„Ef hann fengi gott heimili væri það mikil áskorun að mynda traust. Hann er hálfvilltur eftir útiveruna, enda var hann í um átta ár á vergangi, eftir því sem okkur var sagt,“ segir Halldóra.

Fylgjast má með bataferli kattarins Bergs á Facebooksíðu Kattholts.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.