Lífið

Helga hannar litríka sundboli

Helga Lilja Magnúsdóttir Rekur sitt eigið tískufyrirtæki undir merkjum Helicopter.
Helga Lilja Magnúsdóttir Rekur sitt eigið tískufyrirtæki undir merkjum Helicopter. Fréttablaðið/Vilhelm
Helga Lilja hannar föt undir merkjum Helicopter sem er hennar eigið framleiðslufyrirtæki. Fyrir tveimur árum sá hún verk eftir myndlistarkonuna Hörpu Björnsdóttur sem hafði ákveðið að mála mynd á dag í Meistaramánuði og sýna almenningi. Hún varð heilluð af myndunum og sá fyrir sér að þær gætu skapað flott munstur á fötum.

„Harpa er vinkona mín og eftir að ég sá myndirnar spurði ég hana strax hvort hún væri til í að vinna með mér,“ segir Helga. „Fyrsta flíkin sem varð til úr þessu samstarfi er sundbolurinn sem ég sýndi á Facebook í vikunni en munstur eftir hana verða á fleiri flíkum sem ég kynni á næstunni.“

litríkur sundbolur Helga notaði munstur úr málverki eftir Hörpu Björnsdóttur vinkonu sína í sundbolinn.MYND/Helga Lilja
Helga segist alltaf hafa gert sín munstur sjálf en stíll Hörpu sé skemmtilegur og hafi kveikt áhuga hennar á samstarfi. Sjálf er Helga að hefja fjórða starfsár sitt með Helicopter-vörurnar. Hún rekur verslunina Kiosk ásamt fleiri hönnuðum og segist hanna vörur á konur úr þægilegum efnum og einföldum sniðum þar sem litagleðin ræður ríkjum.“

„Fatahönnunarbransinn er auðvitað enginn dans á rósum. Maður verður að taka áhættu en það er gaman að sjá hugmyndir verða að veruleika,“ segir Helga. Fötin eftir hana og Hörpu verða til sölu í Kiosk í sumar auk þess sem Helga selur vörur í búðum í Bandaríkjunum og Bretlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.