Erlent

Egyptar samþykkja breytta stjórnarskrá

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kosningunni lauk á miðvikudagskvöld og var strax hafist handa við að telja.
Kosningunni lauk á miðvikudagskvöld og var strax hafist handa við að telja. Nordicphtoso/AFP
Yfirgnæfandi meirihluti þeirra, sem mættu á kjörstað í Egyptalandi, virðist hafa samþykkt breytta stjórnarskrá.

Fyrstu tölur benda til þess að kosningaþátttakan hafi ekki verið nema 38 prósent, að því er fram kemur á fréttavefnum Al Jazeera, enda höfðu íslamistar hvatt fólk til að mæta ekki á kjörstað.

Þetta er þó heldur meira en þegar Mohammed Morsi, þáverandi forseti, efndi til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá fyrir rétt rúmu ári, en þá tóku tæp 33 prósent kosningabærra manna þátt og var sú stjórnarskrá samþykkt með 64 prósentum atkvæða.

Kosningin hófst á þriðjudag og stóð í tvo daga. Fyrri daginn kom til átaka og létu níu manns lífið, en seinni daginn fór allt betur fram. Mikil öryggisgæsla var í landinu meðan á þessu stóð.

Þetta voru fyrstu kosningarnar í Egyptalandi frá því herinn steypti Mohammed Morsi af stóli í sumar. Stefnt er að forseta- og þingkosningum síðar á árinu.

Margir Egyptar virðast vonast til þess að samþykkt nýju stjórnarskrárinnar marki upphafið að endalokum á þeim áhrifum sem Bræðralag múslima hefur haft í landinu.

Framkvæmd kosninganna hefur verið gagnrýnd, ekki síst kosningabaráttan sem einkenndist af nokkru offorsi stuðningsmanna stjórnarinnar. Stjórnarandstaðan fékk lítinn aðgang að fjölmiðlum, sem eru flestir á bandi stjórnarinnar.

Fastlega er reiknað með því að herforinginn Abdel Fattah el Sissi, sem er varnarmálaráðherra í bráðabirgðastjórn landsins, muni bjóða sig fram til forseta. Hann hefur þó ekki tekið af skarið um það opinberlega ennþá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×