Innlent

Læknir óttaðist um líf sitt og spáði að sjúkraflug Mýflugs myndi enda illa

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Björn Gunnarsson, fyrrverandi læknisfræðilegur forsvarsmaður sjúkraflugs á Akureyri, starfar nú hjá Norsk luftambulanse í Noregi. Björn segir ótrúlegan mun á öryggismálum og fagmennsku þar og í sjúkrafluginu hjá Mýflugi.
Björn Gunnarsson, fyrrverandi læknisfræðilegur forsvarsmaður sjúkraflugs á Akureyri, starfar nú hjá Norsk luftambulanse í Noregi. Björn segir ótrúlegan mun á öryggismálum og fagmennsku þar og í sjúkrafluginu hjá Mýflugi.
Fyrrverandi læknisfræðilegur forsvarsmaður sjúkraflugs á Akureyri kveðst hafa gert margar athugasemdir við sjúkraflug Mýflugs. Hann hafi verið hætt kominn í lágflugi Leifs Hallgrímssonar, framkvæmdastjóra Mýflugs.

Slysið í Hlíðarfjalli um verslunarmannahelgina í fyrra þegar sjúkraflugvél frá Mýflugi brotlenti og flugstjórinn og sjúkraflutningamaður fórust hefur beint athygli að rekstri Mýflugs á sjúkrafluginu.

Mýflug tók við sjúkrafluginu á Akureyri í ársbyrjun 2006 eftir útboð hjá ríkinu. Frá árinu 2010 tók félagið einnig við sjúkraflugi í Vestmannaeyjum og þjónar nú landinu öllu.

Björn Gunnarsson, sem hafði starfað sem læknir við sjúkraflugið frá Akureyri í áratug þegar hann sagði upp störfum fyrir um einu og hálfu ári, segir fjölmarga alvarlega ágalla hafa verið á rekstri Mýflugs á sjúkrafluginu frá Akureyri. Frá árinu 2006 var Björn læknisfræðilegur forsvarsmaður sjúkraflugsins.

„Ég átti endurtekið fundi með Leifi Hallgrímssyni, forsvarsmanni Mýflugs, og ræddi við hann um ýmis atriði sem ég var ósáttur við en það var erfitt að ræða við Leif – hann fór annaðhvort upp á háa c eða hló að manni,“ segir Björn.

Sem dæmi um atriði sem ekki voru í lagi nefnir Björn starfshætti sumra flugmanna Mýflugs og ástand flugvélarinnar sem notuð var.

Ítrekað var kvartað undan eldsneytisleka úr sjúkraflugvél Mýflugs fyrsta árið á Akureyri. Hér er verið að færa vélina úr eldsneytispolli.
Eldsneyti lak af vélinni

„Það stóðu rafmagnsvírar út úr veggjum í flugvélinni og vírar út úr dekkjunum sem voru orðin mjög slitin. Einnig lak eldsneyti af vélinni. Svo snerist þetta um afísingu og ýmislegt annað sem var ekki með þeim hætti sem við höfðum vanist og við vorum ekki sáttir. Okkur var ekkert rótt á þessum tíma og okkur fannst þetta ekki vera eins og það átti að vera,“ útskýrir Björn.

Sjúkraflugélin TF-MYX fórst við lágflug, svokallað „low pass“, yfir akstursbraut Bílaklúbbs Akureyrar 5. ágúst síðastliðinn. Rolf Tryggvason, bróðir Péturs Tryggvasonar sjúkraflutningamanns, sagði í viðtali við Stöð 2 í gærkvöldi að hann hefði sjálfur farið í tvö slík lágflug yfir brautinni sem sjúkraflutningamaður með sama flugstjóra sem brotlenti vélinni. Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær var flugstjórinn gjaldkeri Bílaklúbbs Akureyrar.

Fréttablaðið hefur heyrt af fleiri dæmum um slíkt lágflug á sjúkraflugvélinni á ýmsum stöðum um landið. Björn nefnir sem dæmi er hann var læknir um borð á heimleið eftir sjúkraflug. Framkvæmdastjóri Mýflugs, Leifur Hallgrímsson, hafi sjálfur verið flugstjóri í það skipti. Á Akureyrarflugvelli hafi verið haldinn hátíðlegur flugdagur.

Virkilega hræddur

„Þeir spyrja hvort þeir megi fara í low pass og ég segi já – ef þið farið varlega. Það loddi við fara í einhver „show off“ og í etta skipti varð ég virkilega hræddur. Það var langt út fyrir öll þægindamörk. Leifur reif vélina upp í krappa beygju þannig að maður fékk mörg g í þyngdarkraft. Ég hélt að minn síðasti dagur væri kominn. Það var ekki í lagi en hvað á maður að segja – ég var búinn að segja já,“ segir Björn.

Að sögn Björns voru flugmenn Mýflugs á þessum tíma misjafnir. Sjúkraflutningamennirnir, sem setið hafi aftur í, hafi þá getað verið með heyrnartól og hlustað á samræður flugmannanna. „Þá heyrðum við til dæmis hvort þeir fóru yfir tékklistana eða ekki. Því miður verð ég að segja að ég treysti sumum betur en öðrum. Sumir voru greinilega fagmenn og höfðu alist upp hjá stórum flugfélögum og gerðu þetta ítarlega en aðrir gerðu þetta lítið og illa. Síðan var það tekið út að við gætum hlustað á þá,“ segir Björn.

Björn útskýrir að þótt hann sé læknir en ekki flugmaður hafi hann eftir mörg flug skynjað mun á flugmönnunum – og sá munur hafi verið mikill.

Því er lýsti í tölvupósti að eitt sinn voru flutt 500 kíló af osti með sjúkraflugvélinni.
Smábarn með í sjúkraflug

„Maður tekur eftir hvort stoll-flautan [ofrisflautan] flautar hálfa lendingu eða ekki og hvort menn þurfa að gefa hreyflunum í botn rétt fyrir lendingu af því að þeir rétt ná inn á brautarendann. Maður var náttúrlega oft á nálum. En ég held þeir hafi langflestir verið góðir drengir og það voru flugmenn innan um sem mér fannst gott að vinna með,“ segir Björn.

Að sögn Björns urðu „háværar deilur og hvellir“ oftar en einu sinni. „Til dæmis er þeir tóku upp á því að dæla eldsneyti á flugvélina með sjúkling um borð sem er náttúrlega stranglega bannað. Í stað þess að biðjast afsökunar á kæruleysinu og hætta þá voru viðbrögðin þau að menn rifu bara kjaft,“ segir hann.

Björn segir hafa tíðkast að reka ýmis önnur óviðkomandi erindi samhliða sjúkrafluginu, bæði flutninga á fólki og vörum. Þetta gat tafið viðbragðstíma sjúkraflugvélar sem átti ávallt að vera til taks samkvæmt samningi við ríkið.

„Sjálfur tók ég þátt í ýmsu sem ég hefði betur látið ógert en það versta sem ég man eftir er þegar flugmaður mætti á vakt með fjögurra ára barn sitt. Það geta orðið stórkostlegar uppákomur um borð og hann hafði ekki meiri skilning á starfseminni en það að hann mætti með barnið sitt.“

Ástandið fór batnandi

Björn kveðst hafa haft miklar áhyggjur af rekstri sjúkraflugsins þótt hann hafi batnað með tímanum. Hann hafi ítrekað skýrt heilbrigðisráðuneytinu og forsvarsmönnum sjúkrahússins frá áhyggjunum.

„Mér fannst reksturinn þó fara batnandi og undir það síðasta hafði ég heldur minni áhyggjur. En ég og fleiri sögðum margoft við hvern sem heyra vildi að þessi rekstur myndi fara illa á endanum – og það fyrr en síðar. Það er því miður sannleikurinn,“ segir Björn. Hann hafi sent heilbrigðisráðuneytinu bréf. „Þar fór ég yfir ýmsa þætti í rekstrinum sem ég var mjög ósáttur við. Fyrst og fremst voru það atriði varðandi öryggi og sneru meðal annars að vaktafyrirkomulagi, vinnutímaákvæðum, viðhaldi og eftirliti og rétti flugstjóra til að fljúga undir öryggislágmörkum.“

Ráðuneytið ekki hrifið

Björn segir tvær starfskonur hjá heilbrigðisráðuneytisins hafa komið norður á fund. „Þær voru ekki mjög hrifnar af þessu uppátæki og voru ansi hvassar í viðmóti. Það endaði með því að þær sendu bréfið til Flugmálastjórnar sem taldi sig ekki hafa neina eftirlitsskyldu varðandi vinnutímaákvæði og annað í samkomulagi á milli heilbrigðisráðuneytisins og flugrekstraraðilans,“ segir Björn um viðbrögð við bréfi sínu.

Á endanum segist Björn hafa verið búinn að gera fjölmargar athugasemdir. „Þetta var endurtekinn dómgreindarskortur en öllu var svarað út í hött og lítið gert úr öllum umkvörtunum þar sem lýst var áhyggjum af öryggismálum. Maður sá að þetta leiddi ekki til neins og á endanum hætti maður. Kannski var maður orðinn dálítið samdauna þessu og var bara að reyna að halda friðinn.“

Fyrir um hálfu öðru ári sagði Björn starfi sínu á Akureyri lausu og hætti. Í dag starfar hann í Noregi og flýgur sem læknir með björgunarþyrlum frá Ørland í Þrándheimsfirði. Það segir hann vera allt annan heim. „Hér er gríðarleg fagmennska og viðhald og eftirlit allt í toppstandi. Það er ótrúlegur munur á öryggismálunum og hversu alvarlega menn taka starfið,“ segir Björn Gunnarsson.

Ostur tefur sjúkraflutninga

„500 kíló af osti fyrir Bónus og tveir farþegar fyrir flugstjórann. Alltaf gott að vera á sérútbúinni sjúkraflugvél. Sérstaklega fyrir sjúklinginn frá Kárahnjúkum sem beið í klukkustund á Egilsstöðum meðan sérútbúna ostaflugið stóð yfir. Það var ekki bara tankað á Akureyri heldur hvarf flugstjórinn lengi að útbúa „flugplan“. Man ekki tímann, ef til vill 40-60 mínútur.“ Úr tölvupósti eftir sjúkraflug á árinu 2006.


Tengdar fréttir

Myndband af flugslysinu við Hlíðarfjallsveg

Fréttastofa 365 birtir nú í fyrsta sinn opinberlega myndband sem sýnir þegar TF-MYX sjúkraflugvél Mýflugs brotlendir á akstursíþróttabraut við Hlíðarfjallsveg á Akureyri hinn 5. ágúst 2013. Tveir létust í flugslysinu. Fréttastofan metur það svo að birting myndbandsins eigi erindi við almenning m.a vegna forvarnar- og upplýsingagildis.

Þriðja slysið í lágflugi á fjórum árum

Flugslysið við Hlíðarfjall á Akureyri í fyrra sem Vísir hefur fjallað um í dag er það þriðja á rúmum fjórum árum þar sem flugvél var í lágflugi.

60-70 manns leituðu áfallahjálpar

Tíu manna áfallahjálparteymi Rauða krossins á Norðurlandi hlúir nú að aðstandendum og sjónarvottum eftir flugslys nálægt Akureyri í dag

Yfirlýsing frá Mýflugi: Engu ábótavant í viðhaldi og tækni þegar flugvélin hrapaði

Engu var ábótavant í viðhaldi né tæknilegum atriðum þegar flugvél Mýflugs, TF-MYX, hrapaði í Hlíðarfjalli þann 5. ágúst síðastliðinn með þeim afleiðingum að tveir létust. Áhöfnin var rétt þjálfuð og hafði fengið næga tíma til hvíldar, veðuraðstæður voru hagstæðar og nægt eldsneyti var á vélinni. Þetta segir í tilkynningu frá Mýflugi.

„Beygjan að brautinni var alltof skörp“

Bróðir Péturs Tryggvasonar sem fórst í flugslysi á Akureyri í ágúst segir kröfu um rannsókn byggjast á hagsmunum tveggja barna sem Pétur skilur eftir sig.

„Það stóð allt í ljósum logum“

Sjónarvottur segist hafa séð flugvélina tætast í sundur á brautinni og að í raun sé kraftaverk að enginn hafi orðið fyrir brakinu.

Vilja rannsókn á Hlíðarfjallsslysinu

Bróðir sjúkraflutningamanns sem fórst er sjúkraflugvél brotlenti á kappakstursbraut á Akureyri í ágúst hyggst krefjast opinberrar rannsóknar á slysinu. Flugstjórinn lést einnig í slysinu en aðstoðarflugmaðurinn, sem varaði hann við því að flogið væri allt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×