Lífið

Halda tónleika einu sinni á ári

Ugla Egilsdóttir skrifar
Árni Kristjánsson og Steinn Linnet eru saman í The Zuckakis Mondeyano Project.
Árni Kristjánsson og Steinn Linnet eru saman í The Zuckakis Mondeyano Project. Charlie Strand
„Við eigum okkar aðdáendahóp,“ segir Árni Kristjánsson, annar tveggja í dúettinum The Zuckakis Mondeyano Project, sem heldur tónleika á Paloma á sunnudaginn.

„Aðdáendahópurinn samanstendur af fólki sem horfði á okkur stíga okkar fyrstu skref í söngkeppninni Óðríki Algaula í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Þetta eru árlegir tónleikar, en við höldum bara tónleika um það bil einu sinni á ári, því ég bý í Japan, og Steinn Linnet, sem er með mér í hljómsveitinni, býr í Danmörku.

Dúettinn hefur þá venju að semja nýtt lag fyrir hverja tónleika. „Flest lögin okkar eru óútgefin, en þeir sem eru vanir að koma á tónleikana okkar þekkja lögin. Við höfum gefið út eina plötu sem heitir The Album og kom út árið 2004.“

Árni segir hljómsveitina vera undir miklum áhrifum frá rapptónlist frá fyrri hluta níunda áratugarins. „Við köllum þetta 80‘s electro. Við spilum líka 80‘s power-ballöður. Aðalhljómurinn okkar er þó 80‘s rapp.“

„Við njótum oft liðsinnis annarra tónlistarmanna á okkar tónleikum. Plötusnúðurinn Grand Master Jam spilar með okkur. Svo syngur ein söngkona oft með okkur, en hún er að sinna öðrum verkefnum í Vín,“ segir Árni.

Tónleikar The Zuckakis Mondeyano Project á Paloma hefjast klukkan 21.00. Húsið verður opnað klukkan 20.00 og aðgangur er ókeypis. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.