Lífið

Villi segir brandara

Ugla Egilsdóttir skrifar
Vilhelm Anton Jónsson.
Vilhelm Anton Jónsson. Mynd/ Pjetur Sigurðsson.
Villi og Sveppi verða með risatónleika í Háskólabíói á sunnudaginn klukkan 14.00. Fréttablaðið tók viðtal við Villa af því tilefni.

Nafn: Vilhelm Anton Jónsson.

Aldur: 36 ára (fæddur 1978).

Bæjarfélag: „Bý í Reykjavík, 101. Bjó lengi á Akureyri, og á Laugum í Reykjadal og í Hafnarfirði.“

Flytjið þið ný lög á þessum tónleikum? „Við höfum verið með tónlist í þáttunum okkar. Síðan gáfum við út plötuna Sveppi og Villi búa til plötu í sumar, og þetta eru lögin af henni.“

Um hvað fjalla lögin? „Við semjum oftast lög um það sem við bröllum saman. Til dæmis um rottur, um það að taka til, um hvað það er gott að eiga góðar mömmur og fleira.“

Ert þú góður í að taka til? „Við Sveppi erum báðir mjög þrifnir, en ég gæti sosum bætt mig.“

Geturðu sagt lesendum fyndna sögu af þér og Sveppa? „Í einum þættinum breytti Sveppi mér í rottu. Hann hringdi á meindýraeyði til að láta eyða mér. Í þáttunum varð mamma hans alveg brjáluð, af því að það má ekki gera svona. Það sem gerðist svo var að sumir áhorfendur urðu brjálaðir og hringdu í Stöð 2 sem varð brjáluð út í okkur. Svo skildist öllum að lokum að þetta var bara grín.“

Hvert var uppáhaldsfagið þitt þegar þú varst í skóla? „Það hefur örugglega verið leikfimi þegar ég var lítill, leikfimi og frímínútur og hádegishlé.“

Hvor er betri söngvari, þú eða Sveppi? „Við erum ólíkir en jafnir.“

Hvor er meiri brandarakall? „Sveppi er meiri brandarakall.“

Kanntu einhvern brandara til að deila með lesendum? „Það var einu sinni önd sem kom inn í bakarí og sagði: „Áttu blöðru?“ Kallinn sagði: „Nei.“ Öndin spurði aftur: „Áttu blöðru?“ Kallinn sagði: „Nei.“

Öndin spurði einu sinni enn: „Áttu blöðru?“

Svo sagði kallinn: „Ef þú hættir þessu ekki negli ég gogginn fastan við borðið.“

Þá spurði öndin: „Áttu hamar?“ Kallinn sagði: „Nei.“ Öndin: „Áttu nagla?“ Kallinn: „Nei.“ Öndin: „Áttu blöðru?““

Hvernig kynntust þið Sveppi? „Búnir að þekkjast í mörg ár. Vorum í handbolta hvor í sínu liðinu þegar við vorum litlir. Svo hittumst við í partíum þegar kærusturnar okkar voru saman í sálfræði í Háskóla Íslands.“

Er ykkur stundum ruglað saman? „Nei, ég held að það sé óhætt að segja ekki.“

Eitthvað fleira? „Hlakka til að sjá sem flesta á tónleikunum á sunnudaginn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.