Innlent

Lautarferð níu ára stúlkna endaði í sextán kílómetra göngu

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Stúlkurnar þrjár sem björgunarsveitir Landsbjargar á Austurlandi voru kallaðar út til að leita að í gærkvöldi höfðu brugðið sér í lautarferð. Stúlkurnar sem eru níu ára fóru að heiman frá sér á Egilsstöðum um kvöldmatarleitið og ætluðu í einhverskonar ævintýraferð.

Sú ferð snérist upp í að einni þeirra datt í hug að heimsækja föður sinn sem býr á bæ sem er í um 16 kílómetra fjarlægð frá Egilstöðum. Leit hófst að stúlkunum þegar ekkert hafði sést til þeirra í nokkurn tíma.

Það tók stúlkurnar um fjórar klukkustundir að komast á leiðarenda og gengu þær í norðaustan súld og kalsa golu. Þar var enginn heima en þær komust í síma og hringdu og létu vita af sér.

Faðir stúlkunnar sem þær ætluðu að heimsækja sagðist vera stoltur af dugnaðinum í stúlkunum. En þær hafa þó lofað að gera svona aldrei aftur.

Guðjón Már Jónsson, einn þeirra sem tók þátt í leitinni, sagði að björgunarsveitunum veitti ekkert af því að fá svona dugnaðar stúlkur í sínar raðir. Enda nokkuð afrek að komast alla þessa leið fyrir níu ára börn í því kalda veðri sem var í gærkvöldi. Þær voru vel út búnar, bæði með nesti og teppi. 


Tengdar fréttir

Björgunarsveitir leituðu þriggja stúlkna á Egilsstöðum

Björgunarsveitir Landsbjargar á Austurlandi voru kallaðar út í gærkvöldi til að leita að þremur níu ára gömlum stúlkum sem fóru að heiman frá sér á Egilsstöðum um kvöldmatarleitið og skiluðu sér ekki á tilsettum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×