Lífið

Fegurðardrottning gerir góðverk með skólafélögunum

Marín Manda skrifar
Tanja Ýr Ástþórsdóttir og Aníta Brá Ingvadóttir.
Tanja Ýr Ástþórsdóttir og Aníta Brá Ingvadóttir.
Tanja Ýr Ástþórsdóttir, formaður Góðgerðarnefndar, hvetur fólk til að gera góðverk í þessari viku þegar Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík heldur Góðgerðarviku í fyrsta sinn.

Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík stofnaði Góðgerðarnefnd í febrúar síðastliðnum og er tilgangur nefndarinnar að sjá um góðgerðarmál tengd Stúdentafélaginu og standa vörð um góðgerðarviku Háskólans sem haldin er í fyrsta sinn í þessari viku en mun verða árlegur viðburður hér eftir.

„Við munum standa að hinum ýmsu fjáröflunum og uppákomum í skólanum þessa vikuna og verðum með bingó, happdrættismiðasölu og kökubás en einnig verður boðið upp á tónlistaratriði í skólanum. Aðalatriðið er bara að hafa gaman af þessu,“ segir Tanja Ýr Ástþórsdóttir, formaður Góðgerðarnefndar Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík. Hún segir þessa viku fyrst og fremst vera til þess að vekja athygli á að fólk sýni umhyggju og vert sé að hvetja almenning til að axla samfélagslega ábyrgð og styrkja gott málefni.

„Það að gera góðverk er eitt það besta sem maður getur gert. Að sýna kærleik og hlýhug er eitthvað sem ætlast er til af okkur öllum. Okkur fannst umhyggja vera verðugt málefni til að styrkja í fyrstu góðgerðarviku Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík og þannig stuðla að bættum hag barna og foreldra þeirra.

Það eru allir velkomnir til þátttöku, bæði nemendur HR sem og allir aðrir þótt þetta sé haldið innan veggja HR. Við vonumst að sjálfsögðu til þess að allir leggi sitt af mörkum. Margt smátt gerir eitt stórt.“

Tanja Ýr er fegurðardrottning Íslands og stundar hugbúnaðarverkfræðinám við Háskólann í Reykjavík. Hún hefur haft mikinn áhuga á góðgerðarmálum og var því boðið að verða formaður Góðgerðarnefndarinnar en ásamt henni eru í nefndinni Maren Sól Benediktsdóttir varaformaður, Auður Elísabet Guðrúnardóttir og Ásta Katrín Gestsdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.