Innlent

Tugprósenta lækkun á hrávöru skilar sér ekki til neytenda

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hrávörur eins og sykur, korn og hveiti hafa lækkað um tugi prósenta í erlendri mynt á undanförnum tólf mánuðum en verð í bakaríum og hjá innlendum framleiðendum hefur lítið sem ekkert lækkað á móti. Verð á brauði hækkaði til dæmis um rúmlega 3 prósent á sama tíma.

Fyrirtæki hafa sætt gagnrýni fyrir verðhækkanir á sama tíma og stjórnvöld reyna að hafa taumhald á verðbólgunni. Nokkur þeirra, eins og Emmessís, Vífilfell og Nói Síríus hafa dregið fyrirhugaðar verðhækkanir til baka.

Vísa í heimsmarkað til að réttlæta hækkanir

Hér á landi hefur reglulega verið vísað í heimsmarkaðsverð til að réttlæta verðhækkanir. Athygli vekur að heimsmarkaðsverð á hrávöru hefur lækkað mikið á síðustu tólf mánuðum. Á þeim tíma hefur heimsmarkaðsverð á korni lækkað um tæplega 41 prósent, hveiti hefur lækkað um 22 prósent, sojabaunir um 8,43 prósent og Kaffi um rúmlega 19 prósent. Þá hefur sykur lækkað um 17,3 prósent. Í öllum tilvikum er um lækkun í Bandaríkjadollurum en á sama tíma hefur krónan styrkst um tíu prósent. 

Þessar tölur ljúga ekki. Þrátt fyrir þessa lækkun hefur verð á afurðum úr þessum vörum ekki lækkað hér innanlands eins og hjá heildsölum, framleiðendum og bakaríum. Þvert á móti hafa það í einhverjum tilvikum hækkað. 

Hafa búið í haginn fyrir verðbólgu

Ólafur Darri Andrason, aðalhagfræðingur Alþýðusambands Íslands (ASÍ) segir að í einhverjum tilvikum hafi innlendir framleiðendur hafi í raun verið að búa í haginn vegna væntinga um verðbólgu. Hann segir verðþróun innanlands engan veginn endurspegla þessa lækkun á heimsmarkaði og nefnir sem dæmi að brauð hafi hækkað hér innanlands um 3,3 prósent á sama tíma.

Ólafur Darri segir nú þurfi að ná niður verðbólguvæntingum og allar forsendur séu til þess. Engar forsendur séu til verðhækkana nú og neytendur hafi í raun réttmæta kröfu um að lækkanir á heimsmarkaði skili sér í lækkun á vöruverði innanlands. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×