Lífið

Star Trek-stjarna deildi mynd eftir Hugleik og fékk 85 þúsund „læk“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Takei deildi skopmynd Hugleiks í gær og uppskar myndin um 85 þúsund „læk“.
Takei deildi skopmynd Hugleiks í gær og uppskar myndin um 85 þúsund „læk“. vísir/getty/gva
Bandaríski leikarinn og aðgerðasinninn George Takei deildi skopmynd eftir listamanninn Hugleik Dagssoná Facebook-síðu sinni í gærkvöldi og hefur myndin uppskorið um 85 þúsund „læk“ í kjölfarið.

Takei, sem er 76 ára gamall, er áberandi á Facebook og hefur vakið athygli fyrir hárbeitt skopskyn sitt og almennan hressleika. Honum fylgja um 6,3 milljónir manna á Facebook og því er ljóst að teikning Hugleiks hefur glatt marga undanfarin sólarhring.

Listamaðurinn tekur athyglinni þó með stóískri ró og segist orðinn vanur vinsældum þessarar tilteknu myndar. „Hún birtist víða og hefur öðlast sitt eigið líf,“ segir Hugleikur, en myndin ber nafnið Anarchy in the UK og vísar þar til frægs lags pönksveitarinnar Sex Pistols. Sýnir hún prúðklæddan Breta afþakka tesopa kurteisislega.

„Hún hefur verið krotuð á veggi í Slóvakíu, prentuð á boli í Indónesíu og tattúveruð á húðir um allan heim. Nafnið mitt fylgir sjaldan með og enn síður græði ég eitthvað á því,“ segir Hugleikur sem aðspurður segir þetta líklega sína útbreiddustu skopmynd.

Hann segist þó ekki hafa skýringu á vinsældum myndarinnar umfram aðrar. „Ég bara átta mig ekki á þessu. Mér fannst þetta fyndið þegar ég samdi þetta en mér datt ekki í hug að þetta yrði stöngin inn svona víða, og víðar en í Bretlandi. Bretar fíla þetta og mjög margir halda að þetta sé breskur brandari.“

Takei ásamt mótleikara sínum í Star Trek.
Hugleikur segist halda nokkuð upp á Takei en hann gerði garðinn upphaflega frægan í hlutverki sínu sem persónan Hikaru Sulu í upprunalegu Star Trek-sjónvarpsþáttunum.

„Ég fíla Star Trek: The Original Series rosalega vel og Sulu er alls ekki sístur þar. Hann er soldið frábær og búinn að vera frábær í seinni tíð. Hann hefur verið ötull talsmaður samkynhneigðra á sinn einstaka hátt með grínsketsum á netinu.“

Þá segir Hugleikur Takei hafa komið stuttlega við sögu í sjöunda þætti gamanþáttaraðarinnar Hulla, þar sem titilpersónan sagði „Warp speed Mr. Sulu“ og vitnaði þar í Star Trek.

En hefur myndbirting Takeis aukið umferð inn á Facebook-síðu Hugleiks?

„Mér sýnist eitthvað hafa komið í kjölfarið. Ég er búinn að vera latur á Facebook undanfarið en ég held að það hafi bæst við á milli hundrað og tvö hundruð í dag.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.