Lífið

Hvernig er hljómur silkis?

Listamennirnir kynntust í París, en halda nú samsýningu í Listasafni ASÍ í tengslum við Listahátíð í Reykjavík.
Listamennirnir kynntust í París, en halda nú samsýningu í Listasafni ASÍ í tengslum við Listahátíð í Reykjavík. MYND/Brian FitzGibbon
Elín Edda Árnadóttir og Sverrir Guðjónsson vinna með hjónunum Koho Nori-Newton og Lauren Newton á sýningu í tengslum við Listahátíð í Reykjavík.

Sýningin heitir IMA NOW og er samstarfsverkefni hjónanna tvennra.

„Samstarfið hófst þannig að ég var að vinna verkefni í París og fékk þar vinnustofu til afnota í nokkrar vikur. Það vildi svo skemmtilega til að þessi japanski listamaður, Koho Nori-Newton, var með vinnustofu á sama svæði og við kynntumst þar. Svo kemur í ljós að eiginkona hans, Lauren Newton, er raddlistamaður og vinnur með röddina sem spunahljóðfæri. Við náðum öll rosalega góðri tengingu, líka eiginkona mín, Elín Edda Árnadóttir. Þannig varð sýningin til,“ segir Sverrir Guðjónsson.

Sýningin opnar í dag klukkan fjögur í Listasafni ASÍ.

„Koho vinnur mikið með silkiinnsetningar - stundum klæðir hann heilu veggina, sem hann hefur unnið, litað og jafnvel málað á. Það verður veggur eftir hann í Gryfjunni þar sem við vinnum einnig hljóðverk sem við höfum hugsað út frá silkinu. Hvernig er hljómur silkis?“ spyr Sverrir, léttur í bragði.

Í arinstofu safnsins er Sverrir svo með vídjóinnsetningu sem hann hefur unnið í langan tíma.

„Þar er ég að vinna með rödd í vatni. Verkefnið er samstarf mitt og Brian FitzGibbon. Verkið heitir Andi, sem hefur víðtæka merkingu í íslensku tungumáli.“

Listamennirnir fjórir sameinast svo í stóra salnum með hljóðverk og myndverk, og uppi á þaksvölum safnsins verður fljúgandi silki.

„Síðan verðum við bara með einn lifandi raddgjörning sem við flytjum, við Lauren, fljótlega eftir fjögur þegar sýningin opnar.“

Eftir það stendur sýningin í einn mánuð, eða til 29. júní næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.