Innlent

Hagkvæmara fyrir sveitarfélög að hver panti bíl þegar honum hentar

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
„Ég verð starfsmaður í þjálfun og ætla að nýta tímann að kynnast starfseminni betur,“ segir Bergvin sem ætlar að vinna launalaust fyrsta mánuðinn.
„Ég verð starfsmaður í þjálfun og ætla að nýta tímann að kynnast starfseminni betur,“ segir Bergvin sem ætlar að vinna launalaust fyrsta mánuðinn. VÍSIR/STEFÁN
Bergvin Oddsson var kjörinn formaður Blindrafélagsins á aðalfundi félagsins á laugardaginn. Hann segir metþátttöku hafa verið í kosningunni en 132 greiddu atkvæði.

Þá var kosningin afar jöfn en hann fékk 66 atkvæði en Rósa María Hjörvar sem bauð sig fram á móti honum fékk 65 atkvæði. Eitt atkvæði var síðan annað hvort autt eða ógilt. „Þannig að þetta er minnsti munur sem gat verið á milli okkar,“ segir hann.

Blindir þurfa að ferðast með öðrum 

Baráttmál félagsins er mörg að sögn Bergvins. „Langmesta hagsmunamál blindra og sjónskertra núna er ferðaþjónustan,“ segir hann. Í nokkrum bæjarfélögum, til dæmis í Reykjavík, á Akureyri og Seltjarnarnesi er blindum og sjónskertum boðin leigubílaþjónusta. Þá stýrir notandinn þjónustunni sjálfur og pantar bíl þegar hann þarf á honum að halda.

Önnur sveitarfélög bjóði því miður ekki upp á þessa þjónustu og nefnir hann Hafnarfjörð og Kópavog sem dæmi í þeim efnum. Í hvorum bænum fyrir sig búi um 50 manns sem þurfi á slíkri ferðaþjónustu að halda. Sú þjónusta sem er í boði þar er hins vegar ferðaþjónusta fatlaðra. En hún gengur þannig fyrir sig að panta þarf ferð með bíl fyrir klukkan 16 daginn áður en nota á þjónustuna.

Sá einstaklingur sem notar slíka þjónustu þarf þá að deila bílferð með jafnvel fjórum öðrum og því þarf hann að stoppa á nokkrum stöðum á leið sinni. „Einstaklingurinn þarf þá kannski að stoppa á tveimur öðrum stöðum á leið sinni í vinnuna þar sækja þarf fleiri farþega.“

Hagkvæmara að nota leigubílaþjónustu 

„Þessu viljum við breyta,“ segir Bergvin. „Við höfum bent sveitarfélögunum á það að leigubílaþjónustan er mun hagkvæmari fyrir þau. Það þarf fólk í vinnu þar til að taka við pöntunum vegna ferðaþjónustunnar. Það þarf að kaupa bíla og reka þá.“

Hann segir margfalt hagkvæmara fyrir sveitarfélögin að vera með leigubilaþjónustu og í leið sé það einnig mun hagkvæmara fyrir þann sem þarf á ferðaþjónustu að halda.

Vinnur launalaust fyrsta mánuðinn 

Blindrafélagið veitir ýmsa þjónustu til félagsmanna sinna sem eru um 600 talsins. „Formaðurinn leiðir starfið og mótar það og hann þarf að vera öflugur í að virkja grasrótina,“ segir Bergvin. Félagsmenn eru allt frá ungabörnum upp í eldri borgara þannig að þarfirnar eru mismunandi.

Bergvin er spenntur að takast á við nýtt hlutverk en hann verður nú formaður að minnsta kosti næstu tvö árin. Hann segist ekki munu þiggja laun fyrsta mánuðinn. „Ég verð starfsmaður í þjálfun og ætla að nýta tímann að kynnast starfseminni betur.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×