Lífið

Tugir lítra af blóði og 270 hárkollur á sviði

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Þorleifur Örn frumsýnir Lohengrin eftir Richard Wagner þann þriðja maí í Aubsburg í Þýskalandi. Fréttablaðið/Arnþór
Þorleifur Örn frumsýnir Lohengrin eftir Richard Wagner þann þriðja maí í Aubsburg í Þýskalandi. Fréttablaðið/Arnþór
„Við erum að sprengja húsið utan af okkur,“ segir Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri en hann er um þessar mundir að setja upp óperu Richards Wagner, Lohengrin, í leikhúsinu í Augsburg í Þýskalandi. Frumsýning verður þann þriðja maí.

„Þetta er gríðarlega stór sýning sem við höfum verið að undirbúa í marga, marga mánuði. Þeir hafa aldrei framleitt svona stóra sýningu hérna,“ segir Þorleifur.

Yfir 350 manns starfa að sýningunni, sem er tæpar fimm klukkustundir að lengd.

„Við erum með 100 manna sinfóníuhljómsveit, og það eru tæplega 120 manns á sviðinu þegar mest er. Auk þess eru um 100 manns sem vinna í húsinu, í tæknideild, búningadeild, ljósadeild, sminki, hári og þar fram eftir götunum,“ bætir Þorleifur við.

Þorleifur er þó ekki eini Íslendingurinn sem kemur að sýningunni, en um búninga sér Filippía Elísdóttir, Jósef Halldórsson sér um leikmynd og Helena Stefánsdóttir og Arnar Steinn Friðbjarnarson sáu um að framleiða myndbönd sem eru hluti af óperunni.

„Filippía hefur nú eiginlega ekki sést í þær fimm vikur sem við höfum verið hérna – hún hvarf inn í búningadeildina. Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með því, og það sama á við um Jósef með leikmyndina,“ segir hann, léttur í bragði.

„Þetta er pínulítið eins og að stýra olíutankskipi yfir Atlantshafið – stundum áttar maður sig á því að maður tók ákvörðun fyrir þremur vikum sem maður getur ekki auðveldlega dregið til baka – því þegar sýning er svona stór í sniðum er kannski búið að framkvæma kraftaverk í millitíðinni. Venjulega þegar ég leikstýri er ég oft að breyta öllu fram á síðustu stundu,“ útskýrir Þorleifur.

„Svo er Richard Wagner náttúrulega eitt aðalóperutónskáld Þjóðverja, þannig að maður er að höndla með þeirra allra helgasta.“

Þorleifur sá fyrsta heildarrennslið fyrr í vikunni og segist nokkuð ánægður með útkomuna.

„Þetta er skemmtilegt. Við erum með 350 búninga held ég – það er ekki hægt að láta fólk standa í sömu fötunum í marga tíma á sviði, þannig að það er nóg að gerast. Við erum með þrjár heilar leikmyndir, tugi lítra af blóði, vídjólistamenn og um það bil 270 hárkollur!“ segir Þorleifur að lokum og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.