Innlent

Þingstörf fara alltaf í sama farið

Heimir Már Pétursson skrifar
Ragnheiður segir hljóta að fara að líða að afgreiðslu stærstu mála.
Ragnheiður segir hljóta að fara að líða að afgreiðslu stærstu mála. Vísir/GVA
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir hljóta að fara að líða að því að samið verði um afgreiðslu stærstu mála fyrir þinglok, þeirra á meðal þingsályktunartillögu um slit aðildarviðræðna að Evrópusambandinu. Sextíu og eitt stjórnarfrumvarp á ólíkum stigum bíða afgreiðslu en aðeins átta þingfundadagar eru eftir fram að sumarleyfi þingmanna.

Sautján stjórnarfrumvörp bíða fyrstu umræðu á Alþingi, þeirra á meðal frumvarp um Seðlabanka Íslands vegna eiginfjárviðmiða og ráðstöfun hagnaðar bankans, sem gengur út á að spara ríkissjóði um 10 milljarða í vaxtagreiðslur til bankans.

Tuttugu og níu mál eru í nefnd, þeirra stærst skuldaniðurfellingarfrumvörp ríkisstjórnarinnar sem höfuðáhersla er lögð á að klára fyrir þinglok. En einnig frumvarp fjármálaráðherra sem felur í sér lækkanir á alls kyns gjöldum, eins og eldsneytisgjöldum sem eru hluti ráðstafana stjórnvalda vegna síðustu kjarasamninga.

Þá bíða 15 stjórnarfrumvörp annarrar umræðu. Samtals eru þetta 61 stjórnarfrumvörp, sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir að séu í hlutarins eðli mis stór.

Gefur ekki augaleið að menn þurfa að fara að forgangsraða?

„Jú, ég held að það hljóti nú að vera,“ segir Ragnheiður. „Svo eru ýmis þingmannamál sem samið var um fyrir jól að ættu að ná fram að ganga. Kannski ekki ákveðin þingmannamál en að þingmannamál ættu að ná fram að ganga samhliða. Þannig að jú, ég held að það hljóti að verða svo að menn þurfi að semja og forgangsraða.“

Meðal annars sé um að ræða frumvörp sem háð séu dagsetningum og þurfi því að ganga í gegn , eins og skuldaniðurfellingarfrumvörpin, og svo er umdeild þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um slit á Evrópusambands viðræðunum enn í utanríkismálanefnd.

„Það er alveg ljóst að bæði frumvörpin sem varða skuldaleiðréttinguna og séreignarsparnaðinn að þau verða að ná fram. Þau eru háð dagsetningunni 15. maí. Það þarf að ljúka þeim á einn eða annan hátt og síðan er auðvitað þessi þingsályktunartillaga sem liggur inn í utanríkismálanefnd. Ég held að menn muni semja um hana með einum eða öðrum hætti, þótt ég viti ekki, en mér finnst umræðan hafa verið í þá veru að menn hljóti að gera það,“ segir Ragnheiður.

Það er ekki nýtt að þingmenn komist í tímaþröng og samið sé á síðustu stundu um afgreiðslu mála. Ragnheiður segir stjórnarandstöðuna vissulega hafa visst vald um afgreiðslu mála undir lok hvers þings.

„Þá er þetta unnið í skorpum sem er í sjálfu sér ekki gott,“ segir hún. Enda bjóði slík vinnubrögð upp á mistök við setningu laga.

„Já og hefur marg oft komið í ljós að menn þurfa svo að fínpússa eftir að frumvarp er orðið að lögum, þá kemur í ljós að orðalag eða dagsetningar og ýmislegt hefur farið fram hjá mönnum í hita og þunga leiksins, ef svo mætti að orði komast og hefur þurft að lagfæra þegar komið er saman á ný. Þetta eru ekki þau vinnubrögð sem lagt er upp með hverju sinni en einhverra hluta vegna förum við alltaf í sama farið.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×