Lífið

Bjóst aldrei við því að vera í Eurovision

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Guðrún Eva Mínverudóttir semur texta við lagið Til þín en þetta er í fyrsta sinn sem hún semur texta við lag.
Guðrún Eva Mínverudóttir semur texta við lagið Til þín en þetta er í fyrsta sinn sem hún semur texta við lag. Mynd/Vera Pálsdóttir


„Ég bjóst aldrei í lífinu við því að ég myndi taka þátt í þessari keppni en það er óvænt ánægja,“ segir rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir sem tekur þátt í Eurovision í fyrsta sinn um helgina.

Guðrún Eva er textahöfundur lagsins Til þín sem keppir í undankeppninni á laugardaginn. Höfundur lagsins er Trausti Bjarnason og söngkonan Guðrún Árný Karlsdóttir sér um flutninginn. Þetta er í fyrsta og eina sinn sem rithöfundurinn spreytir sig í textasmíð við lag.

„Trausti hafði samband við mig og bað mig um semja texta við þetta lag. Mér þykir lagið alveg ómótstæðilega fallegt og alls ekki Eurovision-legt enda upphaflega ekki samið fyrir keppnina. Hann sagði mér nákvæmlega hver hans sýn á lagið var sem auðveldaði mér að mála upp stemninguna,“ segir Guðrún Eva en lagið er róleg ballaða.

Guðrún Eva kveðst vera mikill Eurovision-aðdáandi og hún er spennt að prufa að vera í græna herberginu á laugardaginn.

„Þar sem ég er búsett í Hveragerði og ekki með bílpróf er ég bæði búin að redda fari og pössun fyrir laugardaginn. Ég get ekki annað en verið bjartsýn fyrir hönd lagsins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.