Lífið

Bergur hreiðraði um sig í vaskinum

Ugla Egilsdóttir skrifar
Kattholt bjargaði kettinum Bergi.
Kattholt bjargaði kettinum Bergi. Mynd/Einkasafn.
„Bergur er svolítið marinn á sálinni,“ segir Þórarinn Þórarinsson, nýr sambýlismaður hálfvillta stjörnukattarins Bergs. „Hann er varkár, en hann hefur staðið sig vel í þessa tvo sólarhringa síðan hann kom hingað. Hann borðar matinn sinn og pissar í sandinn eins og fyrirmyndarköttur,“ segir Þórarinn. „Það er sambýlismaður minn, hann Óskar, sem lagði kettinum til þetta heimili okkar.“

Þórarinn og Óskar eru báðir miklir dýravinir. „Við unnum saman í gullfiskabúð í Fischersundi. Við erum mjög vel að okkur í köttum. Ég hef ekki tölu á þeim köttum sem við höfum átt, en við höfum reyndar aldrei átt kött saman áður. Við Óskar erum æskuvinir, en hann hirti mig upp af götunni í haust. Óskar er svolítið í því að taka að sér vegalausa ræfla. Það ríkir því mikill skilningur á milli mín og Bergs. Báðir höfum við verið til vandræða.“

Fyrsta kvöldið hreiðraði Bergur um sig í eldhúsvaskinum. „Hann hvæsti þegar ég nálgaðist, þannig að það var ekki hægt að vaska upp það kvöldið,“ segir Þórarinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.