Lífið

Kraftlyftingaæði íslenskra kvenna

Marín Manda skrifar
Mikið eftirlit með lyftingunum Ingimundur Björgvinsson þjálfari sérsníður æfingaprógramm fyrir hverja og eina.Fréttablaðið/GVA
Mikið eftirlit með lyftingunum Ingimundur Björgvinsson þjálfari sérsníður æfingaprógramm fyrir hverja og eina.Fréttablaðið/GVA
Kraftlyftingar kvenna hafa síaukist að undanförnu með mikilli vitundarvakningu um sportið og hafa myndast stórir hópar kvenna sem stunda það af kappi. Einkaþjálfarinn Ingimundur Björgvinsson segir sportið afar krefjandi og að iðkendur gleymi stað og stund.

„Það eru tvær meginástæður sem liggja að baki miklum áhuga á kraftlyftingum hjá konum í dag. Fyrir það fyrsta þá er ákveðin vitundarvakning um líkamsrækt og hin ástæðan er sú að áhuginn spyrst hratt út og í kjölfarið hefur myndast ákveðinn hópur í kringum þetta,“ segir Ingimundur Björgvinsson, einkaþjálfari hjá World Class á Seltjarnarnesi. Hann segir það mikinn misskilning að konur í kraftlyftingum séu bosmamiklar heldur séu þær konur sem sinna kraftlyftingum á heimsmælikvarða flestar grannar og nettar og í góðu formi. „Ef stoðkerfið er í lagi þá er ekkert því til fyrirstöðu að æfa þetta en það er lykilatriði fyrir allar konur að læra tæknina. Góður undirbúningur, rétt tækni, hraði og rétt líkamsbygging hefur mikið um þetta að segja,“ segir Ingimundur þjálfari.

„Þú brennir auðvitað vel og það tekur langan tíma að jafna sig eftir hverja æfingu. Það sem kraftlyftingar hafa fram yfir margar aðrar æfingar er að þetta er svo krefjandi að þú getur eiginlega ekki einbeitt þér að öðru á meðan. Margar konur fara í þetta til þess að gleyma stað og stund og sjá markmið sín verða að veruleika.“

Sterk og í góðu formi Ása Ólafsdóttir, dósent og kraftlyftingakona.
Ása Ólafsdóttir er lögfræðingur að mennt og starfar sem dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Hún hefur verið að æfa kraftlyftingar í þrjú ár og segist hafa fundið sig í sportinu enda sé félagsskapurinn góður og árangurinn sé sýnilegur. 

„Ég æfði og keppti áður í karate en hætti því þegar ég eignaðist börnin mín og svo vantaði mig eitthvað að gera. Mér fannst þessi líkamsrækt henta mér mjög vel því það er allt gert undir eftirliti. Maður stjórnar svo vel áreynslunni og það er sýnilegur og mælanlegur árangur. Þetta er svo skemmtilegt því að það sem maður leggur í þetta, skilar sér til baka,“ segir Ása Ólafsdóttir sem æfir kraftlyftingar fjórum sinnum í viku ásamt þremur öðrum konum. Ása segir að þær lyfti afar sjaldan miklum þyngdum heldur séu þær að æfa almennilegar styrktaræfingar. 

„Ég vil vera fyrirmynd fyrir krakkana mína og þetta snýst raunverulega ekki bara um útlitið heldur að maður sé að gera eitthvað gott fyrir líkamann. Þetta eru endalausar tækniæfingar og heilinn þarf að fá að vera með. Þetta er bara eins og að læra tungumál undir réttri stjórn. Ég treysti þjálfaranum mínum og við höfum allar náð miklum árangri þrátt fyrir að ég sé bara að keppa við sjálfa mig. Takmark mitt er að vera hresstasta og sterkasta amman í framtíðinni.“ 

Ása Ólafsdóttir, dósent við Háskóla Íslands





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.