Lífið

Allir mæti svartklæddir

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Gjörningaklúbburinn "Það verða engar óþægilegar uppákomur.“
Gjörningaklúbburinn "Það verða engar óþægilegar uppákomur.“ Vísir/Daníel
„Þetta er stærsti gjörningurinn okkar hingað til,“ segir Sigrún Hrólfsdóttir, einn meðlimur Gjörningaklúbbsins, en hann skipa þrjár myndlistarkonur. Þær eru Eirún Sigurðardóttir, Jóní Jónsdóttir og Sigrún Hrólfsdóttir. Gjörningaklúbburinn setur upp verkið Hugsa minna – Skynja meira í Listasafni Íslands, en verkið verður sýnt tólf sinnum í febrúar.

Fyrsta sýningin er í kvöld klukkan sjö, en auk þeirra þriggja eru um það bil fimmtán aðrir sem taka þátt í sýningunni.

„Þetta eru leikarar og dansarar, arkítektar og hinir og þessir listamenn. Með verkinu viljum við hvetja fólk til að nýta öll skilningarvitin og hvíla rökhugann,“ segir Sigrún, og segir alla þátttakendur leggja verkinu eitthvað til, þó að þær þrjár leggi línurnar og búi til umgjörðina.

Aðspurð segir Sigrún þetta þó ekki eingöngu skynjunarverk.

„Það eru fjölmargar vísanir og táknmyndir í þessu og þetta er ólíkt því sem við höfum gert áður því við erum að færa okkur lengra yfir á svið leiklistarinnar,“ útskýrir Sigrún og bætir við að þær séu í grunninn myndlistarmenn en ýmislegt svipi til leikhússins í þessu nýjasta verki.

„Til að mynda þarf fólk að kaupa miða og sýningar eru þegar safnið er annars lokað. Fólk verður líka að mæta á réttum tíma og auk þess eiga allir að mæta svartklæddir,“ segir hún, og bætir við að áhorfendur verði hluti af verkinu. „Þeir þurfa samt ekkert að óttast – það verða engar óþægilegar uppákomur,“ segir hún, létt í bragði.

Gjörningaklúbburinn hélt síðast sýningu á Íslandi í Hafnarborg, en þá var um að ræða mun hefðbundnari myndlistarsýningu. „Það er langt síðan við höfum verið með sýningu á Íslandi og við hvetjum sem flesta til að koma og sjá þetta hjá okkur,“ segir Sigrún að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.