Skoðun

Látum náttúruperlurnar njóta vafans

Ásbjörn Björgvinsson skrifar
Íslandsmetið í gífuryrðum og listinni að slíta úr samhengi var klárlega slegið í tengslum við frumvarp um náttúrupassa sem ferðamálaráðherra kynnti ríkisstjórn og þingflokkum í síðustu viku og á fjölmennum blaðamannafundi.

Tilgangur frumvarpsins

Meginmarkmið og tilgangur þess að innleiða náttúrupassann hefur að mínu mati farið alfarið hjá garði í allri umræðunni, þ.e. að nýta átti passann til að skapa þjóðarátak til að byggja upp aðstöðu og öryggi við okkar helstu náttúruperlur víðsvegar um land, dreifa álagi og byggja upp aðstöðu á nýjum stöðum. Okkur ber skylda til að gæta þess að náttúran bíði ekki skaða af þeim mikla vexti sem orðið hefur í ferðaþjónustu. Með það í huga var lagt af stað í vinnu við útfærslu náttúrupassans í samvinnu við hagsmunaaðila, til að finna þá leið sem talin væri sanngjörnust til að standa straum af þessari uppbyggingu.

Þessi markmið hafa fallið í skuggann af umræðu um girðingar, gaddavír og gjaldhlið og öðrum útfærsluleiðum sem ekki þykir raunhæft að fara. Þessar ranghugmyndir fá svo vængi í málefnalegri eyðimörk samfélagsmiðlanna.

Vandamálið við umræðuna hefur einnig verið að þeir sem mest hafa gagnrýnt náttúrupassann höfðu engar forsendur í höndunum um útfærslu passans áður en gagnrýnin hófst. Þá hefur umræðan um mismunandi valmöguleika ekki innifalið endanlega útfærslu á passanum og naut hann því alls ekki sannmælis við þá skoðun. Þeir sem kynnt hafa sér frumvarpið vita að allt tal um girðingar, lögreglueftirlit og slíkt er þar ekki að finna. Ætlunin er að innheimta hóflegt gjald og hafa eftirlit með samskonar hætti og gert er í samgöngukerfum nágrannalanda okkar. Landið verður því jafn opið og áður.

Fyrir hvað er greitt?

Ég hef fullan skilning á að fólki finnist það framandi hugsun að greiða fyrir það sem áður var frítt. Gjaldið er lágt, 1.500 krónur fyrir þrjú ár eða 500 krónur á ári fyrir hvern Íslending, 18 ára og eldri. Kannanir sem gerðar voru við undirbúning frumvarpsins sýndu að ferðamenn voru ekki aðeins tilbúnir að greiða gjald til náttúruverndar, heldur mun hærra gjald en ætlunin er að innheimta nú. Til samanburðar mætti nefna að aðgöngumiði fyrir einn í Þjóðminjasafnið kostar 1.500 krónur. Sú upphæð er ekki innheimt fyrir það að berja munina augum, heldur til að standa straum af kostnaði við húsnæði og geymslu þessara ómetanlegu menningarverðmæta.

Að sama skapi munu þessar 1.500 krónur sem innheimtar verða fyrir náttúrupassa verða nýttar til að standa straum af kostnaði við útsýnispalla, öryggisgrindverk, göngustíga og salerni fyrir þann mikla fjölda ferðamanna sem sækir landið heim.

Sameiginlegt verkefni

Ég hef ítrekað heyrt ráðherra óska eftir því að málið verði rætt málefnalega á Alþingi og umsagna um frumvarpið verði leitað. Þá hefur hún heldur ekki útilokað að það taki breytingum í meðförum þingsins. Það er eðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir um það hvernig best sé að tryggja fé til uppbyggingar á ferðamannastöðum, en tvennt liggur fyrir; mikilvægi uppbyggingarinnar og að hún hefjist sem fyrst. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra og okkur ber að tryggja að náttúruperlurnar njóti vafans.

„Það sem VAR – ER EKKI, Það sem ER – VERÐUR EKKI“ sagði Rick Antonson, forstjóri og stjórnarformaður Tourism Vancouver, á morgunfundi Landsbankans fyrir nokkrum mánuðum.

Ég vil gera lokaorðin hans að mínum:

Ykkar þyngsta byrði er möguleikarnir sem þið búið að, þ.e. auðlindin, landið ykkar og þið sjálf eruð það dýrmætasta sem þið eigið og það verðið þið að passa. (Your heaviest burden is the potential that you have.)




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×