Lífið

Gæludýrum komið í gott form

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Inga er mjög spennt fyrir átakinu.
Inga er mjög spennt fyrir átakinu. Fréttablaðið/Vilhelm
„Við einblínum aðallega á hunda og ketti en okkur finnst eigendur oft ekki meðvitaðir um þegar sérstaklega hundarnir þeirra eru orðnir of feitir. Okkur langaði að vekja athygli á þessu því eins og með mannfólkið fylgja ofþyngdinni mörg heilsufarsvandamál,“ segir Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, eigandi Gæludýr.is. Verslunin hefur blásið til lífsstílsátaksins Ferfættir í form og er markmiðið einfalt – að koma gæludýrum í gott form.

„Þó að fólk á Íslandi hugsi mjög vel um dýrin sín erum við á eftir mörgum evrópskum borgum varðandi aðstöðu til að hreyfa þau. Á þessum tíma árs er fólk duglegt að hugsa um sjálft sig og fara í ræktina og því tilvalið að taka hundinn og köttinn með í það. Fólk gerir sér oft ekki grein fyrir því hvað gæludýrin borða mikið. Tökum sem dæmi íslenskan fjárhund. Eigandi gefur honum eina pylsu sem er um það bil áttatíu grömm en ein pylsa í svona lítinn maga jafngildir því að eigandinn borðaði sex kleinuhringi,“ segir Inga.

Nú þegar eru fjölmargir eigendur búnir að skrá gæludýrin sín en dýralæknir fylgist grannt með þeim sem skrá sig til leiks. Dýralæknirinn heldur fyrirlestur í verslun Gæludýr.is á Smáratorgi á laugardaginn klukkan 12 og fræðir gæludýraeigendur um ofþyngd.

„Dýralæknir skoðar dýrið og vigtar það og ráðleggur eigendum um hve mikið það þarf að léttast. Við tökum prósentuna á milli kjörþyngdar og þess sem er umfram og þá prósentu fær eigandi í afslátt af fóðri hjá okkur. Ef dýrið nær markmiði sínu innan sex mánaða fær það vegleg verðlaun. Þetta er ekki spurning um hver er fyrstur í mark heldur eru dýrin og eigendur að keppa við sig sjálf.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.