Þýska úrvalsdeildarfélagið Lemgo hefur gengið hart að Sverre Andreas Jakobssyni síðustu daga en félagið vill fá hann til liðs við sig eins fljótt og kostur er.
Lemgo er sem stendur í sautjánda sæti deildarinnar með aðeins sex stig úr fimmtán leikjum. Því hafa forráðamenn liðsins leitað allra leiða til að styrkja varnarleik liðsins.
„Þeir hafa haft samband og sett mikla pressu á mig síðustu daga,“ sagði Sverre í samtali við Vísi í dag. „Það er afar ólíklegt að af þessu verði en ég er þegar búinn að ýta þessu frá mér í tvígang. En þeir gefast ekki upp,“ bætti hann við.
Sverre er þó samningsbundinn Akureyri og er þar að auki í fastri vinnu. „Flækjustigið er því nokkuð hátt þó svo að það sé auðvitað ekkert útilokað. Þetta verður endanlega ákveðið í kvöld eða á morgun.“
Sverre, sem er 37 ára, lék með Grosswallstadt og Gummersbach í Þýskalandi og fór frá fyrrnefnda félaginu í sumar. „Það er gaman að maður kemst ennþá í umræðuna úti og sýnir að það er enn smá líf í manni,“ sagði hann í léttum dúr.
Sverre um áhuga Lemgo: Ólíklegt en ekki útilokað
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Mest lesið









Hundur vildi prófa nýja gervigrasið og fór inn á völlinn í Eyjum
Íslenski boltinn

Taka ákvörðun um Glódísi á leikdag
Fótbolti