Lífið

Fengu loksins að gera eitthvað af viti

Finnur Arnar sést hér á mynd með kubbnum.
Finnur Arnar sést hér á mynd með kubbnum. MYND/Jorri
„Ég hef aldrei tekið þátt í svona verkefni. Enginn af okkur hefur neina reynslu af leikhúsi, en það var gaman að fá loksins að gera eitthvað af viti,“ segir Ásmundur Jónsson, nemandi í vél- og orkutæknifræði við Háskólann í Reykjavík, en þrettán manna bekkur úr HR tók þátt í samstarfsverkefni við Borgarleikhúsið um að hanna tæknibúnað leikmyndar við nýjustu uppsetningu leikhússins, Furðulegt háttalag hunds um nótt. Verkið verður frumsýnt í byrjun næsta mánaðar.

Leikmyndin er teningur sem gengur á braut í loftinu og er tæpir þrír metrar á lengd og breidd. Þannig á teningurinn að ganga fram og aftur um sviðið eftir fimmtán metra braut og á að geta snúist í leiðinni um leið og myndum verður varpað á allar hliðar teningsins.

Leikmyndin er með flóknara móti, en sviðsmyndahönnuðurinn Finnur Arnar Arnarson var ánægður með liðsinnið. 

„Ég fékk þessa hugmynd og svo lenti það á öðrum að leysa úr henni,“ segir Finnur léttur í bragði og bætir við að hann hafi áður lagt í flóknari sviðsmyndir. 

Aðspurður segist hann ekki vita hvað leikmyndin kostaði, en hún hafi sjálfsagt verið dýr.

Ásmundur jónsson
„Við reyndum að leita til erlendra fyrirtækja til að fá hjálp við þetta og það þótti of dýrt, þá datt okkur í hug að fara í þetta samstarf – þetta eru strákar sem eru að læra og þeir eiga án efa eftir að rukka hærra tímakaup í framtíðinni, en eru ekki eins dýrir núna,“ segir Finnur jafnframt og segist hafa haft reglulega gaman af samstarfinu.

Furðulegt háttalag hunds um nótt verður stærsta frumsýning Borgarleikhússins í vetur. Hilmar Jónsson leikstýrir verkinu og Þorvaldur Davíð Kristjánsson er í aðalhlutverki. Verkið var ótvíræður sigurvegari sviðslistaverðlauna Breta, Olivier Awards, í ár og hlaut þar alls sjö verðlaun, þar á meðal sem besta sýningin og besta leikritið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.